Skip to main content

Samið við ríkið um land vegna Geitdalsárvirkjunar

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 04. apr 2022 10:24Uppfært 07. apr 2022 11:19

Samið hefur verið um ríkið vegna lands undir virkjun Geitdalsár í Skriðdal. Mat á umhverfisáhrifum á að liggja fyrir í lok árs.


Þetta kemur fram í áætlun um mat á umhverfisáhrifum sem Skipulagsstofnun hefur auglýst. Frestur til að skila inn athugasemdum við matsáætlunina rennur út á morgun.

Í matsáætluninni er framkvæmdinni lýst og gerð grein fyrir helstu þáttum sem metnir verði í umhverfismatinu svo sem áhrif á dýr, samfélag, jarðfræði og vatnalífríki. Mikið af rannsóknunum verður unnið af Náttúrustofu Austurlands. Helstu framkvæmdir sem meta þarf áhrif af eru stíflumannvirki, vegir, efnistaka, vinnubúðir og 16 km rafstrengur sem lagður verður í jörðu frá stöðvarhúsinu ofan bæjarins Geitdals að tengivirki við Hryggstekk.

Samkvæmt tímaáætlun á umhverfismatið að vera tilbúið í október og almenningi gefist þá mánuður til að gera athugasemdir. Skipulagsstofnun hefur síðan um mánuð til að koma með álit á því sem þýðir að ferlinu ætti að ljúka öðru hvoru megin við næstu áramót.

Í umhverfismatinu verður meðal annars gerð grein fyrir vatnafari eftir virkjunina, til dæmis áhrifum á fossa. Í matsáætluninni kemur fram að töluvert sé um fossa í Leirudalsá, sem rennur í Geitdalsá, en þeir njóta sérstakrar verndar í náttúruverndarlögum. Um fossaröð í Leirudalsá segir að hún hverfi ekki heldur verði rennsli jafnara. Áhrif á gróðurfar verða metin en í matsáætluninni segir að það sé að mestu gróið utan árfarvega.

Uppsett afl Geitdalsárvirkjunar er 9,9 MW. Slíka framkvæmd þarf ekki að umhverfismeta samkvæmt lögum en hún er tilkynningaskyld til Skipulagsstofnunar sem getur farið fram á mat. Framkvæmdaaðili ákvað strax í upphafi ferlis að framkvæmdin færi í umhverfismat. Virkjunin er á vegum Geitdalsárvirkjunar ehf. sem er að fullu í eigu Arctic Hydro.

Geitdalsá er dragá og á upptök sín í jarði Hraunasvæðisins, upp af Hamarsdal og Fossárdal. Megin innrennslið í hana er úr Leirudalsá en 1 km löng stífla verður í Leirudal í um 700 metra hæð. Er því lóni ætlað að safna upp vatni frá desember fram í mars. Á svæðinu eru nokkur tvö vötn, tvö þeirra fara undir lónið.

Það er vatninu miðlað niður í minna lón í um 450 metra hæð. Frá því liggur síðan 6,6 km pípa niður að stöðvarhúsinu, sem verður í um 200 metra hæð, ofan við bæinn Geitdal. Á leiðinni verður einnig tekið vatn úr Miðá og Ytri-Sauðá. Alls nær vatnasvið virkjunarinnar yfir 111 ferkílómetra.

Í matsáætluninni er stuttlega kynntir aðrir kostir varðandi staðsetningu virkjunarmannvirkja, það er að hafa stöðvarhús og stíflu inntakslóns innar.

Undirbúningur vegna breytinga á skipulagi Múlaþings vegna virkjunarinnar var unninn á árinu 2019 og áformin þá kynnt almenningi. Í matsáætluninni segir að þau hafi verið sett á ís þar sem ekki hafði verið samið um afnot af landinu, sem er í eigu ríkisins. Þeir séu nú frágengnir og verkefninu haldið áfram.