Samkeppniseftirlitið athugar samvinnu Síldarvinnslunnar og Samherja

nesk.jpg
Samkeppniseftirlitið ætlar að athuga hvort tilefni sé til rannsóknar á hvort Síldarvinnslan, Samherji og Gjögur hafi brotið gegn banni samkeppnislaga um samkeppnishamlandi samvinnu keppinauta. Kaup Síldarvinnslunnar á Berg-Hugin hafa hins vegar verið staðfest.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem stofnunin sendi frá sér í dag. Síldarvinnslan keypti allt hlutafé í Berg-Hugin í Vestmannaeyjum síðasta sumar með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins en fiskveiðistjórnunarkerfinu er meðal annars ætlað að tryggja samkeppni í sjávarútvegi með að vinna gegn því að aflaheimildir safnist á fáar hendur.

Samkeppniseftirlitið telur kaup Síldarvinnslunnar á Berg-Hugin ekki raska samkeppni. „Skiptir í því sambandi m.a. máli að samruninn hefur ekki áhrif á sterka stöðu Síldarvinnslunnar á markaði fyrir uppsjávarfisk og fyrirtækin eru ekki keppinautar í fiskvinnslu.“

Eftirlitið ætlar hins vegar að skoða nánar samvinnu Síldarvinnslunnar og stærstu eigenda hennar, Samherja hf. og Gjögurs hf. Hvort um sig á yfir þriðjungshlut í Síldarvinnslunni og fulltrúa í stjórn.

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, er stjórnarformaður Síldarvinnslunnar en Ingi Jóhann Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gjögurs frá Grenivík, situr einnig í þriggja manna stjórninni samkvæmt vef upplýsingum á vef Síldarvinnslunnar.

„Bæði Samherji og Síldarvinnslan hafa staðhæft að Samherji hafi ekki yfirráð yfir Síldarvinnslunni,“ segir í tilkynningu Samkeppniseftirlitsins. Skoðað var hvort kaupin á Berg-Hugin hefðu einnig í för með sér samruna við norðlensku útgerðarfyrirtækin tvö en niðurstaðan var að ekki væri leitt í ljós að Samherji og Gjögur færu með yfirráð yfir Síldarvinnslunni í skilningi samkeppnislaga.

Þetta þýðir að fyrirtækin þrjú teljast keppninautar í skilningi laganna. „Rannsókn málsins hefur leitt í ljós umtalsverða samvinnu milli þessara fyrirtækja í útgerð, fiskvinnslu og sölu afurða. Þá eiga Samherji og Gjögur fulltrúa í stjórn Síldarvinnslunnar. 

Í ljósi þessa er það niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að óhjákvæmilegt sé að hefja nýtt stjórnsýslumál þar sem tekið verður til athugunar hvort Síldarvinnslan, Samherji og Gjögur hafi brotið gegn banni samkeppnislaga við samkeppnishamlandi samvinnu keppinauta.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.