Samkeppniseftirlitið kannar tengsl Síldarvinnslunnar og Samherja

Samkeppniseftirlitið hefur hafið athugun á því hvort líta beri á Samherja og Síldarvinnsluna í Neskaupstað sem eitt og sama félagið. Eftirlitið ákvað að gera þetta eftir að Síldarvinnslan keypti sig inn í sölufélag Samherja, Ice Fresh Seafood.

Samherji hefur um árabil verið stærsti hluthafinn í Síldarvinnslunni og er það nú með um 30% eign. Eftirlitið hefur áður gerð grein fyrir tengslum félaganna, bæði í eign en einnig stjórnunar- og viðskiptatengslum en ekki talið ástæðu til að taka það til sérstakrar skoðunar fyrr en nú.

Síldarvinnslan keypti síðasta haust 50% hlut í Ice Fresh Seafood, sölufélagi sem Samherji stofnaði árið 2007. Kaupverðið var 4,7 milljarðar króna, bæði í gegnum eldri hluti og hlutafjáraukningu. Samhliða þessu varð uppstokkun á öðrum sölufélögum Samherja og Ice Fresh Seafood og þau öll færð undir Ice Fresh Seafood.

Í tengslum við þennan samruna telur Samkeppniseftirlitið rétt að rannsaka tengsl Samherja og Síldarvinnslunni í samhengi við sameiginleg yfirráð í Ice Fresh Seafood. Samkeppniseftirlitið athugar hvort slík tengsl séu til staðar, eða hafi myndast við kaupin, að líta beri á Síldarvinnsluna og Samherja sem sama fyrirtækið, það er hvort samband þeirra sé það náið að það jafngildi einni efnahagslegri einingu en ekki samstarfi sjálfstæðra keppinauta.

Síldarvinnslan selt mikið í gegnum Ice Fresh Seafood


Í samrunaskrá, sem lögfræðistofan Lex vann fyrir hönd sjávarútvegsfyrirtækjanna, er gerð grein fyrir sambandi fyrirtækjanna á ýmsum sviðum. Það kemur meðal annars fram að Ice Fresh Seafood hafi um árabil séð um mikið af sölumálum Síldarvinnslunnar, enda hún ekki með sjálfstæða sölu. Ice Fresh Seafood hefur einnig selt fyrir Öldu Seafood, það er erlenda útgerð Samherja, og Vísi sem Síldarvinnslan keypti sumarið 2022.

Greint er frá því að 98% afurða Ice Fresh Seafood fari úr landi en sölunet þess nær til yfir 60 landa. Velta þess af útflutningi nam 41 milljarði íslenskra króna árið 2022, um 12% heildarútflutnings íslenskra sjávarafurða. Stærsta íslenska sölufélagið er Iceland Seafood International, sem meðal annars selur fyrir Brim, sem seldi fyrir 67,5 milljarða eða 18% heildarútflutningsins. Á það er bent að þetta séu lágar tölur samanborið við erlend sölufyrirtæki, það stærsta í Evrópu sé MOWI sem hafi selt fyrir 517 milljarða króna. Þar sem Ice Fresh Seafood selur nær eingöngu á erlenda markaði eru viðskiptin ekki talin hafa áhrif á innanlandsmarkað.

Viðskipti með kvóta og samstarf skipa


Þá er farið yfir ýmis stjórnunarleg tengsl, samskipti í gegnum dóttur- og hlutdeildarfélög sem og kvótaviðskipti félaganna en þau hafa skipst á bæði bolfisk- og uppsjávarkvóta, eins og útgerðarfélögum er heimilt. Þau viðskipti námu 5-9% af heildarkvóta hvors félags í viðkomandi tegund árið 2022. Þá hafa skip Samherja landað stórum hluta síns uppsjávarafla í Neskaupstað.

Eins hafa skip félaganna hjálpast að við loðnu- og makrílveiðar frá árinu 2020. Í samrunaskránni segir að engar greiðslur fari þar á milli því samkomulag sé um jafna skiptingu aflaverðmæta sem landað sé hverju sinni eftir því hvaða skip sé við veiðar hverju sinni. Útgerðarfélögin telji samstarfið við makrílveiðarnar hafa gert skipunum kleift að veiða kvóta sinn og hámarka verðmæti aflans.

Samkeppniseftirlitið hefur gefið hagsmunaaðilum frest til 7. mars mars til að koma á framfæri umsögnum eða athugasemdum um tengsl fyrirtækjanna eða kaup Síldarvinnslunnar í Ice Fresh Seafood.



 
 

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.