Samskip hafna því að hafa þvingað fram hærra verð frá Alcoa með samráði

Samskip segja Samkeppniseftirlitið hafa komist að röngum niðurstöðum með ályktun um að fyrirtækið hafi haft samráð við Eimskip til að ná fram 131% hækkun á samningi sínum við Alcoa Fjarðaál. Samskip segja breytingar á gjaldskrá og siglingaáætlun hafa verið nauðsynlegar þegar fyrirtækið réði lífróður í ólgusjó fjármálahrunsins haustið 2008.

Eins og Austurfrétt hefur greint frá lagði Samkeppniseftirlitið hæstu sekt Íslandssöguna á Samskip í síðustu viku þegar fyrirtækið var sektað um 4,2 milljarða króna fyrir samráð við Eimskip um skiptingu íslenska flutningamarkaðarins á árunum 2008-13.

Þetta var niðurstaðan eftir áratugar rannsókn. Eimskip hafði áður undirgengist sátt í málinu með sekt upp á 1,2 milljarða. Fram kemur í úrskurðinum nú að Eimskip hafi í einhverjum tilfellum játað sekt en í þeim hluta sáttarinnar sem er opinbert kemur ekki fram að hvaða leyti það er gert.

Samkeppniseftirlitið telur samráð félaganna um flutninga fyrir Alcoa hafa verið eina af undirstöðum brotanna. Samskip hreppti útflutning félagsins árið 2007 en eftirlitið telur að sumarið 2008 hafi stjórnendur Samskipa og Eimskipa lagt á ráðin um að tryggja Samskipum umtalsverða verðhækkun á sama tíma og það skerti þjónustu sína.

Hvernig eiga Samskip og Eimskip að hafa farið að?


Það var gert þannig að Samskip fækkuðu sjóflutningaskipum sínum úr fjórum í þrjú. Skipið sem var skorið af sigldi um Reyðarfjörð þannig að tími milli viðkoma þar lengdist. Um haustið byrjuðu Samskip viðræður um hækkun á samningunum. Alcoa þráaðist við í fyrstu en gaf eftir tveimur mánuðum síðar, í lok nóvember 2008. Verðið hækkaði um 131%, fór úr 5,5 dollurum á tonn í 15. Eftirlitið segir stjórnendur Eimskips hafa játað að félagið hefði pláss til að flytja álið og bjóða í á móti Samskipum en ekki gert.

Samskip hélt flutningunum en Eimskip fékk það sem umfram var, auk þess að flytja tóma innflutningsgáma austur fyrir Samskip þar þeir voru fylltir af áli. Það gerði Samskipum kleift að hætta siglingum milli Reyðarfjarðar og Reykjavíkur.

Segja hrunið hafa knúið fram breytingar


Í tilkynningu sem Samskip sendu frá sér í dag vegna umfjöllunar Samkeppniseftirlitsins um samningana við Alcoa eru ályktanir þess sagðar alrangar. Þar segir að ítarlegar lýsingar Samskipa á samningaviðræðunum við Alcoa Fjarðaál hafi byggst á gögnum og staðreyndum úr kerfum félagsins. Viðræðurnar á fordæmalausum tímum í íslensku samfélagi og rekstri fyrirtækisins, haf á engan hátt tengst Eimskipi.

Samskip segja staðreyndir í þessu máli, sem öðrum, ekki henta Samkeppniseftirlitinu sem í staðinn horfi til þátta sem styðji „innistæðulausar ályktanir um allsherjarsamráð“ flutningafyrirtækjanna. Þannig hafi eftirlitið allar grundvallarreglur um hlutlægni að engu heldur hrapi „endurtekið að röngum ályktunum og fullyrðingum.“

Kenna efnahagshruninu um


Samskip segjast í andmælum sínum við frumályktun eftirlitsins hafa bent á að efnahagshrunið hafi leitt til 50% samdráttar í innflutningi. Þá hafi gengi krónunnar líka verið í frjálsu falli í marga mánuði. Það hafi ekki bara komið niður á aðilum með gengisbundin lán heldur líka rekstri Samskipa þar sem allur kostnaður flutningskerfisins var í erlendri mynt.

Í úrskurði Samkeppniseftirlitsins segir um þennan málflutning að fyrirtækið hafi ekki lagt fram nein gögn um samdrátt í innflutningi fyrr en í efnahagshruninu um mánaðamótin september/október 2008. Drögin að samráðinu hafi hins vegar verið lögð fram í byrjun júní. Þá hafi viðræður við Alcoa um hærra verð og breytt fyrirkomulag hafist 19. september, tíu dögum áður en fyrsti íslenski bankinn, Glitnir, féll.

Ennfremur bendir eftirlitið á að magn útflutnings hafi vaxið verulega þegar álverið á Reyðarfirði komst í fullan rekstur á árinu 2008. Eins má muna að við gengisbreytingar í kringum hrunið jukust tekjur af útflutningi í krónum talið. Þannig væri hægt að reikna hærri prósentu en 131% séu samningarnir umreiknaðir úr bandarískum dollurum í íslenskar krónur.

Erfiðar ákvarðanir sem ekki voru teknar í samráði við helsta keppninautinn


En í tilkynningu Samskipa er því haldið fram að fyrirtækið hafi þurft að freista þess að endursemja við Alcoa Fjarðaál og halda þremur skipum, ella fara niður í tvö skip. Samningarnir við Alcoa hafi ekki náðst vegna samráðs við Eimskip heldur vegna þess lífróðurs sem flest íslensk fyrirtæki réru haustið 2008. Samskip náðu ekki fjögurra skipa kerfi fyrr en sex árum síðar. Þessir atburðir hafi veikt samkeppnisstöðuna við Eimskipum verulega. Ákvörðunin um breytinguna á sjóflutningunum hafi verið sársaukafull og ekki ákveðin í samráði við helsta keppninautinn.

Í úrskurðinum segir að Alcoa hafi talið verðhækkanirnar verið tímabundnar og næstu ár ítrekað reynt að fá það lækkað. Álverið hafi loks 2011 ákveðið að bjóða út flutningana sem varð til þess að nýstofnað félag, Cargo W, tók við þeim árið 2013. Eftirlitið telur þá aðgerð hafa átt stóran þátt í að skapa á ný samkeppni á íslenskum flutningamarkaði.

Áfram segir í tilkynningu Samskipa að skuldir Eimskip hafi verið um 120 milljarðar króna og afskrifaðar í nauðasamningsferli. Þannig hafi Eimskip getað haldið óbreyttri starfsemi og aukið yfirburði sína á markaðinum. Þess vegna segi það sig sjálft að Samskip hefðu aldrei dregið ótilneydd úr flutningagetu sinni. Það hafi hins vegar verið nauðsynlegt til að forðast gjaldþrot.

Því séu ályktanir Samkeppniseftirlitsins ekki bara rangar heldur ómaklegar. „Framsetning Samkeppniseftirlitsins um að þessar aðgerðir og viðræður við Alcoa hafi átt sér stað í samráði við Eimskip er hreint út sagt makalaus og fullkomin ósannindi.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.