Skip to main content

Samþykktu tillögu að breyttri eigendastefnu HEF-veitna

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 07. mar 2025 09:56Uppfært 07. mar 2025 11:25

Sökum þess að veitufyrirtækið HEF hefur alla tíð verið rekin sem einkahlutafélag þrátt fyrir að vera að fullu í eigu sveitarfélagsins Múlaþings hafa annars lagið komið upp vafamál um hver beri ábyrgð á hverju og hverjum beri að svara fyrirspurnum kjörinna fulltrúa. Tillaga að nýrri eigendastefnu sem samþykkt var um daginn er ætlað að skýra þau mál og einfalda.

„Í sjálfu sér breytir þetta ekki miklu fyrir íbúa Múlaþings,“ segir Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar í samtali við Austurfrétt.

„Hitaveitan er einkahlutafélag í eigu sveitarfélagsins. Eðli máls samkvæmt gilda önnur lög um rekstur sveitarfélaga en rekstur einkahlutafélaga en hér er um að ræða einkahlutafélag sem að hluta til hagar sér eins og sveitarfélag. Eigendastefnunni nýju er ætlað að skýra þetta ferli sem er mikilvægt því að starfsemi hitaveitunnar er orðin miklu viðameiri en hún var.“

Eigendastefna þurfi að taka mið af sífellt viðameiri verkefnum sem HEF-veitur sinna umfram það sem áður var.

„Það liggur ekki alltaf ljóst fyrir þegar þarf að afla upplýsinga um eitt og annað hvort nálgast eigi þær upplýsingar frá eigandanum, byggðaráð eða sveitarstjórn, eða hvaða aðgengi mismunandi fulltrúar sveitarfélagsins hafa hverju sinni. Eigendastefnan skal skýra hvert hlutverk stjórnar er af hálfu eigendanna því sveitarstjórnin á félagið en það er önnur stjórn yfir félaginu. Til dæmis eru núna margir úr byggðaráði í stjórn hitaveitunnar en það verður kannski ekki alltaf raunin. Hér er verið að skýra og túlka nákvæmlega hvenær skal spyrja sveitarstjórn og í hvaða tilfellum.“

HEF-veitur eru með sífellt fleiri járn í eldinum á mjög víðfemu svæði. Nú síðast um áramótin tók HEF við rekstri fjarvarmaveitu Seyðisfjarðar úr höndum RARIK. Mynd AE