Sárasótt staðfest í klaustrinu á Skriðu

Nýjar greiningar á beinagrindum frá Skriðuklaustri í Fljótsdal hafa nú leitt í ljós að allnokkrir sjúklingar klaustursins þjáðust af sárasótt. Slíkar kenningar hafa áður verið viðraðar eftir hefðbundnar mannabeinsgreiningar frá klaustrinu en þær niðurstöður voru dregnar í efa þar sem sjúkdómurinn átti ekki að hafa borist til Íslands snemma á sextándu öld þegar klaustrið var í rekstri.

Nýrri greiningar með fornerfðafræðitækni [fornDNA] sýna að sú var þó sannarlega raunin. Ekki einungis fékkst staðfestingin heldur og að þar er um að ræða elstu dæmi um sárasótt á Íslandi.

Það var Steinunn J. Kristjánsdóttir, prófessor í fornleifafræði, sem kynnti þessar merku niðurstöður á Læknaþingi í vetur. Steinunn stýrði fornleifarannsóknum á rústum klaustursins.

Sárasótt er ekki ýkja flókið að eiga við nú á dögum en fyrr á öldum var annað uppi á teningnum, þegar kvikasilfur var helsta meðalið gegn sóttinni og var sú meðferð sem sjúklingarnir að Skriðuklaustri fengu.

Alls greindist 21 beinagrind, í kirkjugarði klaustursins, með merki um sárasótt, bæði áunna og meðfædda. Það er því tölfræðilega nokkuð stór hluti af þeim 300 sem þar voru grafnir í heildina en af þeim fjölda voru 150 grafir sjúklinga. Sárasótt fannst því í 14% þeirra sjúklinga sem þar voru lagðir til hvílu. Athygli vekur að enginn sárasóttarsjúklinganna var jarðaður í kistu samkvæmt rannsóknum Steinunnar.

„Aðalatriðið er að búið er að staðfesta með fornDNA greiningum að sjúklingar í Skriðuklaustri voru með sárasótt. Það var á meðan klaustrið var í rekstri á fyrri hluta 16. aldar. Búið var að greina sárasóttina með hefðbundnum mannabeinagreiningum en margir efuðust um að greiningin væri rétt, því venjulega er talið að sárasótt hafi ekki borist til Íslands fyrr en á síðari tímum. Nú er sem sé búið að staðfesta þetta með fornDNA greiningu. Greiningarnar hafa sömuleiðis sýnt að það voru Íslendingar sem voru jarðaðir við klaustrið. Engin dæmi eru um bein þaðan sem tilheyrðu manneskju af erlendum uppruna.“

Þetta er í fyrsta sinn sem bakterían, sem veldur sárasótt, er greind í beinagrind á Íslandi. Eins eru þetta elstu dæmi um sárasótt í landinu.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.