Skip to main content

Sauðburður í góðu meðallagi en blikur á lofti fyrir austfirska bændur

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 12. jún 2023 14:23Uppfært 12. jún 2023 14:39

Sauðburður víðast hvar á Austurlandi gekk vel þetta vorið en þar kemur til að veðráttan var með besta móti fyrir sauðfjárbændur að sögn Jóns Björgvins Vernharðssonar, bónda að Teigaseli og félaga í Félagi sauðfjárbænda á Héraði og og Fjörðum.

Líkast til ekki margir almennt sem lofa liðið vor fyrir frábæra veðráttu en það gerir Jón Björgvin hikstalaust. Hún næstum gat ekki verið betri fyrir bændur með sauðfé að hans sögn.

„Heilt yfir gekk sauðburður mjög vel í vor. Flestir bændur taka fósturtalningar þannig að þeir vita fjölda fóstra strax í marsmánuði. Frjósemin almennt var svona í meðallagi en afföllin voru minni nú en áður og lítið um veikindi. Svo hefur tíðafarið verið mjög gott. Það er nefninlega gott að það sé svona kalt á nóttunni og ekki rigningar eða krapahríð því ef hitinn er mikill þá blossa auðveldar upp pestir eða sýkingar og slíkt. Þurrt veður er alltaf af hinu góða í sauðfjárrækt og þetta vorið var þetta nánast með allra besta móti.“

Nú þarf rigningu

Jón Björgvin lýsir þó áhyggjum af miklum hitum undanfarna sólarhringa og vikur en samkvæmt langtímaspám Veðurstofu Íslands verður ekkert lát á sumarhitum austanlands langt fram í næstu viku og hvergi bólar á regni þann tíma. Það vekur upp spurningar með vatn því ekki er lengra síðan en tvö ár síðan hitabylgja setti stórt strik í reikning marga bænda sem þurftu margir að fá tankbíla til að komast í vatn þegar verst lét. Reyndar telur Jón Björgvin að líklega sé komið að ákveðnum kaflaskilum hjá bændum almennt vegna veðurfars síðustu ára.

„Það má segja að gróðurfar í efri byggðum eins og í Jökuldal og Fljótsdal sé þetta tíu til fimmtán dögum á undan því sem venjan er í meðalári. Nú hins vegar er farið að hægja á gróðrinum þar sem engin er vætan. Það er hins vegar búið að koma hlutum þannig fyrir að ef á þarf að halda þá mun taka skemmri tíma að koma bændum til aðstoðar ef vatnsskortur fer að gera vart við sig.“

Kaflaskil í landbúnaði austanlands?

Jón Björgvin telur sjálfur, og veit um fleiri sem hugsa á þeim nótum, að hugsanlega sé komið að ákveðnum kaflaskilum í landbúnaði austanlands.

„Persónulega finnst kannski komið að þeim tímapunkti í landbúnaði á Austurlandi að bændur þurfi að fara íhuga að vökva beinlínis túnin sín reglulega. Ef bændur nú hefðu haft yfir vökvunarbúnaði að ráða þá held að staðan væri sú að margir staðir allavega á Héraði væru komnir í slátt. Það vantar ekki hitann en grasið þarf jú vökva líka. Mér sýnist að á síðustu 10 árum séu minnst fjögur þar sem það vantaði raka þegar á þurfti að halda. Ef fram heldur sem horfir er sennilega óumflýjanlegt að íhuga einhverjar slíkar lausnir ef miklir hitar snemma á sumrin verða viðvarandi og engin verður rigningin. Það eina sem hefur til dæmis bjargað okkur hingað til sumum er að hitastig að næturlagi hefur farið langleiðina niður í eina gráðu. Hitamunurinn á degi og nóttu þannig orðið til þess að töluvert af dögg myndast og það bjargað ýmsu. En þetta verða menn að fara að skoða alvarlega að mínu mati.“