Skip to main content

Sauðfjárveikivarnarlína við Jökulsá á Dal afnumin

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 09. júl 2025 14:26Uppfært 09. júl 2025 15:22

Atvinnuvegaráðherra, að tillögu Matvælastofnunar, hefur fellt niður varnarlínu sauðfjárveikivarna sem áður var dregin eftir farvegi Jökulsár á Dal. Í rökstuðningi segir að bæði bændur og sauðfé hafi verið hætt að virða línuna.


Varnarlínan var ein þriggja sem afnumin var með tilskipun ráðherra sem birt var í lok maí. Auk hennar voru felldar niður Kollafjarðarlína og Vatnsneslína.

Eftir Jöklu var dregin Jökuldalslína sem skildi að Norðausturhólf, sem var fyrir norðan ána að Jökulsá á Fjöllum, og Héraðshólf, sem var milli hennar og Jökulsár í Fljótsdal/Lagarfljóts. Rennsli í ánni minnkaði verulega með tilkomu Kárahnjúkavirkjunar, þegar jökulvatninu var veitt austur í Fljótsdal. Hins vegar var komið upp girðingum sem áttu að viðhalda línunum.

Hey, tæki og dýr flutt án leyfis


Í svari við fyrirspurn Austurfréttar um af hverju línan hafi verið felld niður, segir að minna rennsli í ánni þýði að hún sé ekki lengur fjárheld sem leiði til þess að kindur renni yfir hana fram og til baka.

En ekki síður er áhugaverð fullyrðing í svarinu um að „sumir bændur" á svæðinu séu „hættir að virða hana sem varnarlínu." Með því er átt við að sækja fé sem farið hefur yfir án leyfis, flytji hey yfir hana án leyfis, fari með heyvinnutæki á milli án þess að þrífa „og svo framvegis."

Smjörfjallalína áfram í gildi


Áfram er gert ráð fyrir að svokölluð Smjörfjallalína, um Smjörvatnsheiði og Smjörfjöll yfir í Dalsá og þaðan til sjávar, verði í gildi sem aukavarnarlína. Sú lína er hins vegar vart sterkari en Jökuldalslínan var.

Ástæðan fyrir því að þeirri línu er haldið er að norðan hennar er önnur sjúkdómastaða. Munar mestu um að þar hefur aldrei komið upp riða og er heimilt að selja líflömb af svæðinu milli Jökulsár á Fjöllum og Brekknaheiði.

Í svari ráðuneytisins segir hins vegar að sama sjúkdómastaða sé beggja vegna línunnar sem nú er felld niður. Staða gagnvart riðu sé sú sama og beggja megin bólusett gegn garnaveiki.

Telja hag í minni höftum á bændur


Ráðherra fellir niður línur, að fengnum meðmælum Matvælastofnunar og samkvæmt lögum um ítarlegt heilbrigðiseftirlit búfjár á þeim svæðum sem að línunum liggja. Óskað var eftir athugasemdum frá Bændasamtökunum en engar athugasemdir bárust þaðan.

Í svari ráðuneytisins segir að áætlaður ágóði af niðurfellingu línunnar sé einfaldari stjórnsýsla og aflétting ýmissa hafta sem hvílt hafi á sauðfjárbændum á svæðinu.

Sauðfjárveikivarnahólfin eru litaflokkuð og endurspeglast litirnir í eyrnamerkjum sauðfjár. Til þessa hafa eyrnamerkin norðan Jöklu verið gul en appelsínugul í Héraðshólfi. Í svari ráðuneytisins segir að ákvæði um litamerkingar eyrnamerkja séu í skoðun og ekki hægt að segja til um hver endanleg útfærsla verði.