Saur- og ekólígerlamengun í neysluvatni Seyðisfjarðar vegna bilunar
Vegna bilunar í raftæknibúnaði í hreinsistöð vatnsveitunnar þurfa Seyðfirðingar að gera sér að góðu að sjóða allt sitt neysluvatn langt frameftir næstu viku.
Þetta staðfestir framkvæmdastjóri HEF-veitna sem stöðina rekur en fyrr í vikunni varð bilun í gegnumlýsingartæki veitunnar sem varð til þess að virki þess tækis dalaði töluvert. Rannsókn Heilbrigðiseftirlits Austurlands í kjölfarið leiddi í ljós að vatnið var mengað af saur- og ekóligerlum. Gerlamagnið nægilegt til að þörf er á að sjóða allt neysluvatn en alls óhætt er að nota vatn til annarra nota án sérstakra aðgerða.
Að sögn Aðalsteins Þórhallssonar, framkvæmdastjóra HEF, hafa varahlutir þegar verið pantaðir til að ráða bót á vandamálinu en þeir varahlutir ekki væntanlegir fyrr en að viku liðinni eða svo. Seyðfirðingar þurfa að sjóða allt sitt vatn til neyslu fram að þeim tíma sem viðgerð lýkur.