Selárdalslaug lokuð í vetur vegna endurbóta
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 25. sep 2025 14:38 • Uppfært 25. sep 2025 11:39
Sundlauginni í Selárdal í Vopnafirði verður lokuð í hálft ár frá 1. nóvember á meðan aðstöðuhúsið þar verður endurbyggt. Sveitarstjóri segir Vopnfirðinga undirbúa sig með að kaupa heita potta til að hafa við hús sín.
Upphaflega stóð til að hefja framkvæmdirnar 1. október en á fundi sveitarstjórnar í dag var samþykkt áætlun um að hefja þær 1. nóvember þar sem aðalverktaki er að ljúka öðru verki. Von er á hönnuðum og arkitektum á staðinn í lok október til að ljúka undirbúningi.
Valdimar O. Hermannsson, sveitarstjóri, segir að þörf hafi verið komin á að endurbyggja aðstöðuhúsið því það hafi verið „komið á hálfgert skilorð hjá heilbrigðiseftirlitinu.“ Um tíma var jafnvel talið að húsið væri ónýtt en eftir ítarlega skoðun var niðurstaðan að endurgera það. „Húsið hefur ákveðinn sjarma og þess vegna var ákveðið að gera það upp í gömlum stíl.“
Húsið nútímavætt í gömlum stíl
Talsverðar breytingar verða á húsinu. Það verður klætt að utan og viðbygging, sem smíðuð var fyrir sundlaugarverði, verður fjarlægð en í staðinn kemur stór gluggi þannig þeir geti fylgst með öryggi fólks í lauginni.
Klefar verða færðir til og allt aðgengi bætt. Á móti tapast geymslupláss en lausnir á því verða skoðaðar í tengslum við frekari framkvæmdir síðar. „Þegar þessar framkvæmdir eru búnar þarf að fara í laugina sjálfa. Hún var máluð í sumar. Eins þarf að fara yfir útisvæðið. Við skoðum geymslupláss í samhengi við það.“
Áætlaður kostnaður við endurbæturnar er 125 milljónir króna. Verið er að ljúka skólasundi í næstu viku og ráðgert að endurbótum verði lokið þannig hægt verði að kenna í vor.
Mikil sala á heitum pottum
Ýmsar útfærslur hafa verið til skoðunar á endurbótum á sundlaugamálum Vopnfirðinga. Til dæmis var skoðað hvort rétt væri að byggja sundlaug í kauptúninu og þar er til staðar lóð fyrir hana. Ný laug myndi kosta hundruð milljóna króna auk þess sem rekstur hennar yrði óhagkvæmur þar sem heitt vatn er í Selárdal en ekki út á Tanga.
Í staðinn hafa verið gerðar endurbætur á íþróttahúsinu. Búningsklefar þess voru endurgerðir síðasta vetur og gufubaðið hefur verið endurnýjað. Ákveðið var að fresta uppsetningu heitra potta þar.
Þótt Vopnfirðingar komist ekki í sund í sveitarfélaginu í vetur segir Valdimar að skilningur sé á stöðunni. „Allir sem hafa farið þarna sáu að ástandið var orðið dapurt og fagna því að þetta verði gert.“
Sumir hafa gripið til sinna eigin ráða. „Mér skilst að það sé mikil sala á heitum pottum hér. Fólk setur þá upp heima hjá sér. Ég hef séð nokkra gera það í næsta nágrenni við mig.“