Skip to main content

Senda þakkir eftir tröllvaxið verkefni

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 03. apr 2023 13:42Uppfært 03. apr 2023 13:44

Lögreglan á Austurlandi sendi í morgun frá sér þakkir til íbúa og annarra sem komu að umfangsmiklum aðgerðum vegna ofanflóða og fannfergis í fjórðungnum. Fjölmennt lið sem kom austur til aðstoðar hélt heim um helgina.


Í tilkynningu sem lögreglan sendi frá sér í morgun er íbúum þakkað fyrir æðruleysi og samvinnu auk þeirra kom utan frá til aðstoðar í hinu „tröllvaxna verkefni.“

Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörgu var það um 150 manna lið samsett björgunarsveitarfólki frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu, lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sérsveit lögreglustjóra, Landhelgisgæslunni, slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, Rauða krossinum, Vegagerðinni, Veðurstofunni og víðar.

Björgunarsveitarfólkið kom víða af landinu, meðal annars frá Höfn, Hellu, Vestmannaeyjum, Laugarvatni, Eyrarbakka, Hveragerði, Grindavík, Akranesi, Hnífsdal, Ísafirði, Skagaströnd, úr Skagafirði, frá Akureyri, Húsavík Mývatni og úr Aðaldal, auk höfuðborgarsvæðisins.

Þá voru allar björgunarsveitir á Austurlandi virkjaðar. Bækistöðvar björgunarsveita á Egilsstöðum, Seyðisfirði, Eskifirði og Fáskrúðsfirði auk Neskaupstaðar voru nýttar til að stjórna aðgerðum og jafnvel sem gistirými fyrir utanaðkomandi björgunarfólk.

Í hópnum voru meðal annars hundateymi, undanfarar og aðgerðarstjórar auk venjulegs björgunarsveitarfólk. Þá voru tæki send austur þannig að tiltæk voru meðal annars snjóbílar og snjósleðar, jeppar, fólksflutningabílar, vörubílar, drónar auk báta og björgunarskipa.

Þá færir lögreglan því heimafólki sem gekk strax í öll verk þakkað fyrir samstarfið. Ljóst er að fólkið sem gekk í verkin, úr lögreglu, björgunarsveitum og víðar var einnig fólk sem þurfti að rýma hús sín.

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar sendi frá fundi sínum fyrir helgi þakkir til samfélagsins alls og viðbragðsaðila. Í ályktuninni segir að atburðirnir sýni enn og aftur hversu öflugar viðbragðssveitir séu til staðar í Fjarðabyggð.

Að lokum lýsir lögreglan samhygð með þeim sem eigi um sárt að binda eftir hamfarirnar. Þjónustumiðstöð á vegum ríkislögreglustjóra opnaði í Egilsbúð í Neskaupstað í morgun. Íbúar af öllu Austurlandi geta leitað þangað. Opið er 11-18 fram til miðvikudags en þá verður tekin ákvörðun um frekari opnun út frá þörf. Hjálparsími Rauða krossins, 1717, er opinn allan sólarhringinn en einnig sinna félagsþjónusta sveitarfélaga, prestar og Heilbrigðisstofnun Austurlands stuðningi.

Um 150 manna lið kom austur til að hjálpa í síðustu viku. Hér er hópurinn fyrir heimferð á flugvellinum á Egilsstöðum á laugardag. Mynd: Landsbjörg