Séra Kristín Þórunn nýr prestur í Egilsstaðaprestakalli

Séra Kristín Þórunn Tómasdóttir hefur verið ráðin sem nýr prestur í Egilsstaðaprestakalli. Þá er séra Brynhildur Óla Elínardóttir komin til starfa þar.

Þrír sóttu um stöðuna sem auglýst var í byrjun árs. Valnefnd kaus Kristínu Þóru og hefur biskup Íslands nú staðfest ráðninguna.

Kristín Þórunn er fædd í Neskaupstað árið 1970. Þar hóf faðir hennar, sr. Tómas Sveinsson, sinn prestsferil en hann starfaði síðar í áratugi í Háteigskirkju í Reykjavík.

Kristín Þóra lærði guðfræði- og trúarbragðafræðinám á Íslandi, í Svíþjóð og í Bandaríkjunum. Hún hefur starfað sem prestur frá því 1998 við fjölbreyttar aðstæður í dreifbýli og þéttbýli, að því er fram kemur í tilkynningu Þjóðkirkjunnar.

Hún hefur alla tíð verið virk í samkirkjulegu starfi og komið að vinnu við þróun og mótun helgihalds og sálmavinnu.

Síðustu ár hefur hún verið búsett í Genf, Sviss, með fjölskyldu sinni þar sem eiginmaður hennar, sr. Árni Svanur Daníelsson leiðir samskiptastarf Lútherska heimssambandsins. Þar hefur hún starfað með lútherskum og anglikönskum söfnuðum í prestsþjónustu og öðrum hlutverkum.

Kristín Þórunn er ekki ókunnug prestakallinu því hún þjónaði þar síðasta vetur meðan sr. Þorgeir Arason var í námsleyfi.

Þá var sr. Brynhildur Óla Elínardóttir ráðin í prestakallið fyrir jól til að sinna afleysingum til 1. maí. Brynhildur er alinn upp í Merki á Jökuldal og stúdent frá Menntaskólanum á Egilsstöðum. Hún vígðist til starfa á Skeggjastað í Bakkafirði árið 1996 en hefur síðustu misseri gegnt störfum víða um land.

Mynd: Þjóðkirkjan/Árni Svanur Daníelsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.