Sérstakt innflytjendaráð skal hafa áhrif á málefni innflytjenda á Austurlandi
Um skeið hefur Austurbrú leitað leiða til að auka áhrif innflytjenda á málefnum er þeim tengjast beint. Einn angi þess er stofnun sérstaks innflytjendaráðs og leitar stofnunin logandi ljósi að erlendum íbúum sem vilja efla raddir þess hóps í framtíðarstefnu austfirskra sveitarfélaga.
Tveimur fundum af fjórum alls þar að lútandi er þegar lokið en fyrri tveir fundirnir voru haldnir á Reyðarfirði og Egilsstöðum fyrr í vikunni. Framundan eru fundir á Vopnafirði á mánudag og í Fljótsdal á fimmtudaginn kemur.
Guðrún Ásgeirsdóttir er önnur tveggja starfsmanna Austurbrúar sem hafa umsjón með verkefninu en helst til lítil þátttaka erlendra íbúa á Austurlandi á fyrstu tveimur fundunum hefur þótt miður.
„Áhuginn er sannarlega til staðar en það þarf virkilega að hafa fyrir að sækja og finna einstaklinga sem vilja taka þátt. Við kynntum verkefnið á öllum helstu samfélagsmiðlum, á bæjarsíðum öllum en undirtektirnar verið takmarkaðar. Það er flókið að ná til innflytjenda austanlands en við höfum reynt allar þessa helstu leiðir en árangurinn verið takmarkaður.“
Erlendir íbúar Austurlands um 18% mannfjöldans
Rýnihópar þeir sem Austurbrú vill koma á fót af hálfu innflytjenda, sem telja nú um stundir um 18% allra íbúa Austurlands, og því mikilvægt að sá hópur hafi sitt að segja um þau mál sem upp koma í fjórðungnum.
„Nú eru fundir á Reyðarfirði og Egilsstöðum að baki og eftir helgina heimsækjum við Vopnafjörð og síðar í næstu viku Fljótsdal. Á þessum stöðum erum við að vonast eftir að ná í tvo eða þrjá einstaklinga miðað við skráninguna nú í dag. Óskandi væri að fá mun fleiri en það því innflytjendurnir eru hlutfallslega fleiri en það á báðum stöðum. Þátttaka á þessum fundum er ekki skuldbinding um að taka þátt í innflytjendaráðinu heldur öllu frekar að leggja línurnar um hvaða mikilvægu málefni innflytjendur vilja hafa áhrif á með stofnun þess ráðs í framtíðinni.“
Mynd frá „þjóðahátíð“ á Vopnafirði fyrir nokkru þar sem erlendir íbúar kynntu heimaland sitt. Næstum einn fimmti allra íbúa í fjórðungnum eru innflytjendur en þeirra málefni detta gjarnan milli skips og bryggju í ákvörðunartöku sveitarfélaganna. Mynd úr safni