Sértæki byggðakvótinn er kjölfesta samfélagsins á Breiðdalsvík

Elís Pétur Elísson, útgerðarmaður hjá Goðaborg og Gullrúnu á Breiðdalsvík segir sértækan byggðakvóta tryggja 25 heilsársstörf sem aftur tryggja þjónustu og afþreyingu á staðnum.

Samningar um sértækan byggðakvóta voru boðnir út í vor. Til Breiðdalsvíkur renna allt að 400 þorskígildistonn og er samið til sex ára, frá og með komandi fiskveiðiári. Þar hafa útgerðarfélagið Gullrún og fiskvinnslan Goðaborg verið leiðandi í nýtingu kvótans.

„Þetta gerir það að verkum að við getum haldið áfram. Án þessa kvóta værum við ekki að gera út á heilsársgrundvelli og við værum ekki með vinnslu. Ég áætla að þetta skili 25 heilsársstörfum í veiðum og vinnslu hér á Breiðdalsvík,“ segir Elís Pétur Elísson, framkvæmdastjóri félaganna.

Goðaborg og Gullrún koma víða við í atvinnulífinu á Breiðdalsvík. Auk útgerðar og fiskvinnslu stendur fyrirtækið að baki Kaupfélaginu, sem er verslun og veitingastaður, og Beljanda, bjórgerðar og bars. Þá eiga eigendur Goðaborgar frystihússalinn í tengdu félagi, samkomusal þar sem haldnar eru bæði veislur og tónleikar.

„Við erum með 35-40 manns í heilsársvinnu. Án kvótans værum við með mun færra fólk því hann myndar kjölfestuna. Ef við værum ekki með þessi 25 störf sem kvótinn skapar þá væri erfitt að halda uppi versluninni eða kaffihúsinu. Þetta fólk er líka með fjölskyldur sínar með sér þannig það væri almennt minna af peningum í umferð í byggðarlaginu.“

Harðfiskurinn hentar vel með


Goðaborg og Gullrún gera út tvo línubáta allt árið. Að auki er félagið með bát á snurvoðarveiðum helminginn af árinu og handfærabát í 5-6 mánuði, sem fyrst og fremst fiskar ufsa.

Í samningunum við Byggðastofnun er ákvæði um lágmarksvinnslu út frá kvótanum. Elís Pétur segir Goðaborg standa vel undir þeim viðmiðum, en bendir á að í stað þess að horfa á hve mikið sé unnið sé mikilvægara að horfa á verðmætin sem til verða, samanber störf og afleidd verðmæti innan byggðar. Kjölfesta í vinnslu og útgerð skapar síðan aftur tækifæri í aðra þjónustu.

„Við erum að slægja 500 tonn af fiski á ári í verktöku fyrir aðra aðila. Án vinnslunnar þá værum við ekki í því og þar með væri engin slægingarþjónusta á Austurlandi.“

Goðaborg hefur að auki lagt í vöruþróun og komið harðfiski á markað. „Við höfum trúlega þrefaldað það magn sem við tökum í gegnum harðfiskvinnsluna síðustu þrjú ár. Harðfiskurinn hentar mjög vel með annarri vinnslu. Það er hægt að geyma hann og taka til hans þegar lítið er að gera í öðru og hámarka með þeim hætti nýtingu starfsfólks og mannvirkja og styðja þannig við stöðugleika í heilsársvinnslu.“

Fólk sér orðið framtíð á Breiðdalsvík


Fyrirtækið Goðaborg var formlega stofnað haustið 2013 og er því orðið rúmlega tíu ára gamalt. Á sama tíma hóf Breiðdalshreppur, sem þá var sjálfstætt sveitarfélag, þátttöku í átaksverkefni Byggðastofnunar um brothættar byggðir. Elís Pétur segir að tilkoma sértæka byggðakvótans hafi átt þátt í að efla byggðina.

„Áþreifanlegasti ávinningurinn af kvótanum er í samfélaginu. Húsnæðisverðið hefur örugglega fimmfaldast á þessum tíma. Fólk er farið að kaupa hús, þrjú hús hafa verið byggð og það er horft til þess að byggja fleiri. Fólk fjárfestir í fasteignum hér því það sér framtíð á staðnum.

Ég þekki ekki hvernig til hefur tekist með kvótann annars staðar en þetta er veruleikinn hér. Við ættum ekki þennan sal eða rækjum tónleikastað án þess að við værum með sjávarútveg sem skilaði peningum. Þá er hægt að fjárfesta í einhverju sem skapar gleði og uppgang í byggðarlaginu.

Oft eru þessi tilfinningalegu gildi raunverulegri mælikvarði á stöðu þess heldur en hvort keypt hafi verið einhver þorskígildistonn. Þau er hægt að selja í burtu á einni nóttu eins og hefur sýnt sig í gegnum árin.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.