Setja sér metnaðarfulla menningarstefnu í Múlaþingi til næstu sex ára

Vinna við að marka menningarstefnu fyrir sveitarfélagið Múlaþing til ársins 2030 hefur staðið yfir í heilt ár en með henni skal efla og styrkja lista- og menningarlíf í öllum kjörnum sveitarfélagsins næstu árin.

Við stefnumótunina var haft víðtækt samráð að sögn Aðalheiðar Borgþórsdóttur, atvinnu- og menningarmálastjóra Múlaþings, sem er ein þeirra sem unnið hafa að mótun stefnunnar. Byggðaráð Múlaþings lagði blessun sína yfir áætlunina fyrir skömmu síðan með þeim fyrirvara að hún verði unnin innan ramma fjárhagsáætlunar hvert ár.

Samvinna við fjölmarga

Aðspurð um hvað standi sérstaklega upp úr eða sé frábrugðið því sem verið hefur tiltekur Aðalheiður sérstaklega að átak verði gert í að hlúa að allri aðstöðusköpun í menningu og listum og eins verði grasrótinni gert hátt undir höfði.

„Stefnan var unnin mjög vítt og breitt og vandað til verka og samtal við ýmsa forstöðumenn, listamenn og íbúa sjálfa á sérstökum íbúafundum þar sem allir gátu komið með hugmyndir að borðinu. Úr þessu öllu unnum við skilmerkilega. Við höfðum líka til hliðsjónar menningarstefnu sem Fljótsdalshéraðs hafði gert áður en til sameiningar kom.“

Ekki aðeins er stefnan mörkuð til langs tíma heldur og fylgir sérstök aðgerðaáætlun um hvenær tilteknir þættir hennar skuli vera lokið auk áætlaðs kostnaðar í hverju tilfelli fyrir sig.

Tryggja nýliðun

Listinn of langur til að gera góð skil hér en meðal þess helsta sem fara skal í næstu tvö árin er að klára Safnahúsið á Egilsstöðum en kostnaður kringum það gæti numið um 330 milljónum króna. Rík áhersla verði lögð á samvinnu við þjóðarstofnanir í menningu og listum eins og Þjóðleikhúsið og Listasafn Íslands. Þá skal kannað hvort mögulegt er að bjóða sérstaklega upp á strætóferðir samhliða viðburðum í sveitarfélaginu og hvernig hægt verði að tryggja nýliðun í viðburðahaldi sem og tryggja ósjálfbærum verkefnum rekstrargrundvöll. Því tengdu skal kanna hvort ástæða sé til að stofna sérstakan framkvæmdasjóð menningar líkt og hugsunin er með framkvæmdasjóð ferðamannastaða.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.