Setja upp vörn við klettana á Vopnafirði
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 11. sep 2023 13:51 • Uppfært 11. sep 2023 13:56
Starfsmenn Vopnafjarðarhrepps munu í dag setja upp varnargirðingu við klettabelti þar sem banaslys varð fyrir viku. Annar einstaklingur féll þar fram af í gærmorgunn. Mikil umferð er af fólki um svæðið þessa dagana.
„Við erum að setja upp girðingu til bráðabirgða í dag,“ segir Sara Elísabet Svansdóttir, sveitarstjóri á Vopnafirði.
Um er að ræða klettabelti í nágrenni smábátahafnarinnar á Vopnafirði. Kona á þrítugsaldri lést eftir að hafa hrapað af klettunum niður í fjöruna fyrir neðan aðfaranótt mánudagsins í síðustu viku.
Annað óhapp varð þar á sjöunda tímanum í gærmorgunn. Annarri konu skrikaði þar fótur þannig hún féll fram af klettunum. Hún hlaut minniháttar meiðsli sem gert var að á heilsugæslunni á Vopnafirði. Nokkur hálka var á svæðinu þegar óhappið átti sér stað.
Fyrir ofan svæðið er grasbali og hefur mikil umferð verið þar síðustu daga. Fólk hefur komið þangað til að votta hinni látnu og aðstandendum hennar samúð sína og skilið eftir blóm eða kveikt á kertum. Girðingin á að varna því að fólk á ferð um svæðið hætti sér of nærri brúninni.