Skip to main content

Setning Neistaflugs færð inn í hús vegna veðurs

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 02. ágú 2024 15:24Uppfært 02. ágú 2024 15:27

Skipuleggjendur Neistaflugs í Neskaupstað hafa ákveðið að flytja setningarathöfn hátíðarinnar sem fara á fram í kvöld inn í Egilsbúð sökum veðurs.

Verslunarmannahelgin byrjar ekki sem best veðurfarslega austanlands en víðast hvar í fjórðungnum er töluvert úrhelli og spár gera ráð fyrir að svo verði áfram fram á kvöldið. Sú er einnig staðan í Neskaupstað þar sem Birnir hyggst blása stuði í íbúa og gesti aðra.

„Við ákváðum að hafa vaðið fyrir neðan okkur því það er nokkuð mikil rigning og einhver vindur á að bætast við með kvöldinu svo við færum þetta inn í kvöld svo enginn rigni niður,“ segir María Bóel Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri hátíðarinnar. „Dagskráin breytist ekkert að öðru leyti að sinni enda er spáin ágæt á morgun og við hér tökum bara einn dag fyrir í einu.“

Dagskrá Neistaflugs þetta árið er æði fjölbreytt en hátíðin stendur langt fram á sunnudagskvöld. Þá dagskrá gefur að líta hér.

Eitt það sem seint mun þurfa að færa inn úr rigningu er hinn vinsæli brunaslöngubolti þar sem hverfi Neskaupstaðar takast á. Sú keppni fer fram á sunnudag. Mynd Fjarðabyggð