Setning Neistaflugs færð inn í hús vegna veðurs

Skipuleggjendur Neistaflugs í Neskaupstað hafa ákveðið að flytja setningarathöfn hátíðarinnar sem fara á fram í kvöld inn í Egilsbúð sökum veðurs.

Verslunarmannahelgin byrjar ekki sem best veðurfarslega austanlands en víðast hvar í fjórðungnum er töluvert úrhelli og spár gera ráð fyrir að svo verði áfram fram á kvöldið. Sú er einnig staðan í Neskaupstað þar sem Birnir hyggst blása stuði í íbúa og gesti aðra.

„Við ákváðum að hafa vaðið fyrir neðan okkur því það er nokkuð mikil rigning og einhver vindur á að bætast við með kvöldinu svo við færum þetta inn í kvöld svo enginn rigni niður,“ segir María Bóel Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri hátíðarinnar. „Dagskráin breytist ekkert að öðru leyti að sinni enda er spáin ágæt á morgun og við hér tökum bara einn dag fyrir í einu.“

Dagskrá Neistaflugs þetta árið er æði fjölbreytt en hátíðin stendur langt fram á sunnudagskvöld. Þá dagskrá gefur að líta hér.

Eitt það sem seint mun þurfa að færa inn úr rigningu er hinn vinsæli brunaslöngubolti þar sem hverfi Neskaupstaðar takast á. Sú keppni fer fram á sunnudag. Mynd Fjarðabyggð

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.