Skip to main content

Sex ára fangelsi fyrir árás á Vopnafirði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 04. jún 2025 14:15Uppfært 04. jún 2025 14:58

Jón Þór Dagbjartsson hefur verið dæmdur í sex ára fangelsi fyrir árás á fyrrum sambýliskonu sína á Vopnafirði í október í fyrra. Hann er einnig dæmdur til að greiða henni rúmar þrjár milljónir króna í bætur.


Dómur í málinu var kveðinn upp í Héraðsdómi Austurlands í dag. Dómsorð var lesið upp en einhverjir dagar eru í að dómurinn sjálfur og þar með forsendurnar verði opinberar öðrum en þeim lögmönnum sem komu að málinu.

Jón Þór er dæmdur í sex ára fangelsi, en frá því dregst sá tími sem hann hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því um miðjan október í fyrra. Jón Þór var ákærður fyrir tilraun til manndráps með að hafa veist að fyrrum sambýliskonu sinni með litlum járnkarli. Hann var ásakaður um að hafa reynt að stinga hana og síðan kyrkja.

Þá var hann ákærður fyrir húsbrot og kynferðislega áreitni á fyrrum heimili þeirra nokkrum dögum fyrir árásina. Jón Þór þarf að greiða konunni 3,1 milljónir króna í bætur. Hann þarf einnig að greiða allan sakarkostnað, rúmar 15 milljónir króna. Ákæruvaldið fór fram á 7-8 ára fangelsi.

Jón Þór var enn fremur ákærður fyrir árás á íbúa á Vopnafirði í nóvember árið 2023. Í sama mánuði voru skotvopn gerð upptæk á heimili hans. Hann var ákærður fyrir vopnalagabrot fyrir að hafa ekki skráð þau eða geymt á réttan hátt.

Þar var farið fram á upptöku skotvopnanna. Samkvæmt dómsorðinu í dag var fallist á þá kröfu ákæruvaldsins. Átta haglabyssur, fjórir rifflar, einn afsagaður riffill og kindabyssa verða því gerð upptæk auk skotfæra.