Skip to main content

Sex fjölskyldur hafa boðið flóttafólki frá Úkraínu húsaskjól á Austurlandi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 25. mar 2022 14:28Uppfært 25. mar 2022 14:29

Samkvæmt tölum Fjölmenningarseturs, sem heldur utan um þann fjölda fólks hérlendis sem hefur áhuga að bjóða flóttafólki frá Úkraínu húsaskjól hafa sex aðilar á Austurlandi boðið fram slíka aðstoð hingað til.

Um er að ræða tvo aðila í Múlaþingi og fjóra í Fjarðabyggð sem boðið hafa húsaskjól annaðhvort frítt til skamms tíma eða gegn vægri leigu en samkvæmt síðustu upplýsingum eru milli 400 og 500 flóttamenn frá Úkraínu komnir til landsins og von á töluvert fleirum á næstunni.

Nokkuð er síðan stjórnvöld beindu þeim tilmælum til sveitarfélaga landsins að taka mót flóttafólki væri þess nokkur kostur. Sveitarstjórnir bæði í Múlaþingi og Fjarðabyggð bókuðu sérstaklega um vilja til að koma til móts við flóttamenn eins og hægt væri en samkvæmt upplýsingum Austurfréttar hefum engum verið útvegað húsnæði enn sem komið er.

Laufey Þórðardóttir, sviðsstjóri fjölskyldusviðs hjá Fjarðabyggð, segir málið í skoðun og sama segir Elvar Snær Kristjánsson, formaður fjölskylduráðs Múlaþings.