Sex stórar rannsóknir í einu
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 04. apr 2023 13:49 • Uppfært 04. apr 2023 13:51
Sex stórar rannsóknir hafa að undanförnu verið í gangi hjá Rannsóknarsetri Háskóla Íslands á Egilsstöðum. Slíkt telst ágætur árangur hjá starfsstöð sem er allajafna ekki með nema 1-2 starfsmenn.
Fjallað er um starf rannsóknasetra HÍ á Austurlandi í síðasta tölublaði Austurgluggans, en ársfundur setranna var nýverið haldinn á Egilsstöðum.
Flestar rannsóknirnar hjá setrinu á Egilsstöðum er util langs tíma: Saga hreindýra á Íslandi, Menningarminjar á bökkum Jöklu, rannsókn á brotamálum í Múlaþingi á 19. öld, viðhorfsrannsókn um fiskeldi í sjókvíum auk rannsóknar á tengslum austfirsks samfélags og hálendisins hér um slóðir.
Að auki má telja til fornleifastörf Rannveigar Þórhallsdóttur sem starfar sem verkefnastjóri við setrið. Rannsóknir hennar á Seyðisfirði benda til þess að mannvist í firðinum sem eldri en áður hefur verið talið.
„Sumar rannsóknir taka til eldri tíma og minja en aðrar taka á málefnum dagsins. Þá eru setur sem þessi kjörinn vettvangur fyrir þá vísindamenn sem þurfa hingað austur tímabundið út af tilteknum rannsóknum og öllum öðrum sem áhugasamir eru um landshlutann,“ segir Unnur Birna Karlsdóttir, forstöðumaður setursins.
Að auki er Rannsóknarsetur á Breiðdalsvík sem að hluta til hefur verið rekið í samvinnu við Borkjarnasafn Náttúrustofu Íslands, en þar hefur helsta markmiðið verið rannsóknir á jarðfræði Íslands. María Helga Guðmundsdóttir stýrir því.
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum sem kom út í vikunni. Hægt er að panta áskrift hér.