Seyðfirðingar geta senn státað sig að eiga tré ársins
Skógræktarfélag Íslands útnefnir árlega tiltekið tré einhvers staðar í landinu sem tré ársins og þetta árið fellur sá heiður í skaut sitkagrenitrés við Hafnargötu á Seyðisfirði.
Með því að velja sérstaklega Tré ársins er félagið fyrst og fremst að beina sjónum almennings að því gróskumikla starfi sem unnið er um land allt í trjá- og skógrækt en ekki síður benda á að sum tré umfram önnur hafa stórt menningarlegt gildi fyrir íbúa eða tiltekinn stað.
Formleg athöfn Skógræktarfélagsins vegna þessa verður á sunnudaginn kemur við umrætt tré sem stendur við Hafnargötu 32 þar sem Sandfell stóð lengi vel. Formaður Skógræktarfélagsins mun ávarpa gesti af þessu tilefni og veita viðurkenningarskjöl en sveitarstjóri Múlaþings, Björn Ingimarsson, mun jafnframt stíga í pontu af tilefninu auk Hafbergs Þórissonar, fyrrum eiganda salat- og kryddjurtafyrirtækisins Lambhaga, en það fyrirtæki styrkir verkefnið sérstaklega. Í lokin verður gestum boðið upp á veitingar í Tækniminjasafninu. Dagskráin hefst klukkan 13.
Tré ársins 2023 er þetta fallega sitkagrenitré á Seyðisfirði sem allir bæjarbúar þekkja. Mynd Ómar Bogason