Seyðfirðingar greiða 48% meira fyrir hita og rafmagn en Héraðsbúar
Íbúar á Seyðisfirði verða að gera sér að góðu að greiða 48 prósent hærra verð fyrir raforku og húshitun en nágrannar þeirra á Héraði og rúmlega 86 prósent meira en íbúar Seltjarnarness þar sem verð fyrir hita og rafmagn er lægst í landinu.
Þetta er reyndin samkvæmt nýjum gögnum sem Orkustofnun hefur tekið saman um raforkuverð á landsvísu fyrir Byggðastofnun en skýrsla þeirra tekur mið af gjaldskrám þann 1. september síðastliðinn.
Stofnunin tekur þar stöðuna hjá 92 byggðakjörnum í landinu og sem fyrr eru þéttbýliskjarnar Austurlands, að Egilsstöðum frátöldum, mjög neðarlega á blaði. Viðmiðið í skýrslunni er hita- og raforkukostnaður á ársgrundvelli í 140 fermetra einbýlishúsi.
Árlegur kostnaður á Egilsstöðum reynist vera 192 þúsund krónur og þrátt fyrir að þar sé langlægsti kostnaðurinn á Austurlandi öllu nær sá kjarni aðeins um miðja deild ef svo má að orði komast.
Eskifirðingar koma næstir en einbýlishúsaeigandinn þar í bæ greiðir árlega um 235 þúsund krónur fyrir ljóstýru og yl. Þá kemur nokkuð stökk niður í Vopnafjörð, Reyðarfjörð, Neskaupstað, Fáskrúðsfjörð, Djúpavog, Stöðvarfjörð og Breiðdalsvík en íbúar á þessum slóðum punga árlega út um 260 þúsund krónum.
Kostnaðurinn eykst töluvert í viðbót hjá fólki á Borgarfirði eystra. Einbýlishúsaeigandinn þar þarf að greiða 278 þúsund krónur árlega sem er samt sjö þúsund krónum lægra en Seyðfirðingar þurfa að gera sér að góðu.