Seyðfirðingar vatnslausir frameftir frá og með kvöldinu

Til stendur að tengja nýja stofnlögn í vatnskerfi Seyðfirðinga í kvöld og nótt en það mun hafa í för með sér algjört vatnsleysi á meðan verkið er unnið. Íbúar eru hvattir til að birgja sig upp af vatni.

Af hálfu HEF-veitna hefur undirbúningur vegna þessa staðið lengi yfir svo ekkert fari úrskeiðis enda ekkert gamanmál fyrir heilt bæjarfélag að vera án vatns þó tímabundið sé. Lokað verður fyrir klukkan 20 í kvöld og ráð er fyrir gert að verkið taki sex til átta klukkustundir

Aðalsteinn Þórhallsson, framkvæmdastjóri, segir að einblöðungur hafi farið í öll hús vegna þessa í síðustu viku og fólki boðið að setja sig á sms-tilkynningarlista. Auk þess hafi tilkynning verið birt á vef Múlaþings og víðar svo þetta komi engum að óvörum.

„Hér er um að ræða lögn sem ábyggilega er orðin 50 ára gömul og það verður ekki beðið lengur með að skipta henni út. Við reynum að milda þetta eins og hægt er með því að gera þetta að kvöldi og frameftir nóttu en hjá þessu verður ekki komist.“

HEF-veitur hvetja fólk til að birgja sig upp af bæði neysluvatni og ekki síður vatni til að skola niður úr klósettum og vænlegt sé að eiga meiri birgðir en minni ef ske kynni að verkið taki lengri tíma en áætlað er.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.