Orkumálinn 2024

Seyðfirðingar: Við erum lifandi fólk með blóð í æðum

sfk_motmaelafundur_nov11_hsa_web.jpgSeyðfirðingar hvetja þingmenn til að endurskoða áætlanir um niðurskurð í heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Jafnframt styðja þeir baráttu Vopnfirðinga gegn lokun hjúkrunarheimilisins Sundabúðar.

 

Þetta kemur fram í ályktun samstöðufundar sem haldinn var á Seyðisfirði á föstudagskvöld undir yfirskriftinni „Vér mótmælum öll.“

Í ályktunni er mótmælt „harðlega þeirri  grófu aðför að búsetu á landsbyggðinni  sem birtist í frumvarpi að fjárlögum ríkisins 2011, með harkalegum niðurskurði á fjárframlögum til  heilbrigðismála .“

Ekki hafi verið sýnt fram á að niðurskurðurinn hafi þjóðhagslegan sparnað í för með sér heldur virðist um tilflutning á fjármagni og störfum að ræða.

„Í stað þess  að  fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni eins og núverandi stjórnvöld hafa lofað og skrifað í sinn samstarfssamning, skulu þau nú snarlega  flutt burt og þjónustan  lögð í rúst. Fjölgun opinberra starfa skal einungis verða áfram  utan landsbyggðar.“

Fundarmenn segja þá samstöðu þjóðarinnar sem ríkt hafi um jafnan rétt til heilbrigðisþjónustu hafa verið tætta í sundur.

„Aldraðir skjólstæðingar rifnir upp með rótum og  fluttir nauðugir hreppaflutningum . Uppsagnir starfsfólks sem hvergi getur farið leggst  með fullum þunga á samfélagið sem er veikt fyrir.“

Því er skorað á stjórnvöld og þingmenn að „falla frá atlögu að íbúum landsbyggðarinnar. Við  erum lifandi fólk með blóð í æðum en ekki  hörð steypa eða legókubbar.“

Þá sendir fundurinn Vopnfirðingum „baráttukveðjur og  stuðning  fyrir áframhaldandi tryggri heilbrigðisþjónustu við aldraða  í heimabyggð  í Sundabúð.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.