Skip to main content

Seyðfirðingar: Við erum lifandi fólk með blóð í æðum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 09. nóv 2010 10:58Uppfært 08. jan 2016 19:21

sfk_motmaelafundur_nov11_hsa_web.jpgSeyðfirðingar hvetja þingmenn til að endurskoða áætlanir um niðurskurð í heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Jafnframt styðja þeir baráttu Vopnfirðinga gegn lokun hjúkrunarheimilisins Sundabúðar.

 

Þetta kemur fram í ályktun samstöðufundar sem haldinn var á Seyðisfirði á föstudagskvöld undir yfirskriftinni „Vér mótmælum öll.“

Í ályktunni er mótmælt „harðlega þeirri  grófu aðför að búsetu á landsbyggðinni  sem birtist í frumvarpi að fjárlögum ríkisins 2011, með harkalegum niðurskurði á fjárframlögum til  heilbrigðismála .“

Ekki hafi verið sýnt fram á að niðurskurðurinn hafi þjóðhagslegan sparnað í för með sér heldur virðist um tilflutning á fjármagni og störfum að ræða.

„Í stað þess  að  fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni eins og núverandi stjórnvöld hafa lofað og skrifað í sinn samstarfssamning, skulu þau nú snarlega  flutt burt og þjónustan  lögð í rúst. Fjölgun opinberra starfa skal einungis verða áfram  utan landsbyggðar.“

Fundarmenn segja þá samstöðu þjóðarinnar sem ríkt hafi um jafnan rétt til heilbrigðisþjónustu hafa verið tætta í sundur.

„Aldraðir skjólstæðingar rifnir upp með rótum og  fluttir nauðugir hreppaflutningum . Uppsagnir starfsfólks sem hvergi getur farið leggst  með fullum þunga á samfélagið sem er veikt fyrir.“

Því er skorað á stjórnvöld og þingmenn að „falla frá atlögu að íbúum landsbyggðarinnar. Við  erum lifandi fólk með blóð í æðum en ekki  hörð steypa eða legókubbar.“

Þá sendir fundurinn Vopnfirðingum „baráttukveðjur og  stuðning  fyrir áframhaldandi tryggri heilbrigðisþjónustu við aldraða  í heimabyggð  í Sundabúð.“