Síðasta LungA-hátíðin í sumar: Hvatning til nýrrar kynslóðar að taka við

Ákveðið hefur verið að Listahátíð ungs fólks á Austurlandi (LungA) verði haldin í síðasta sinn í sumar. Framkvæmdastjóri hátíðarinnar segir ytra umhverfi hennar hafa þyngst en um leið sé fegurð fólgin í að viðurkenna að allt hafi sinn líftíma og geta kvatt með sæmd.

Hátíðin hefur verið haldin árlega á Seyðisfirði frá árinu 2000. Þúsundir ungmenna hafa sótt hana í gegnum tíðina og hún verið stökkpallur fyrir margt ungt listafólk. Þeirra á meðal er Þórhildur Tinna Sigurðardóttir, núverandi framkvæmdastjóri, sem er hluti af hópi sem leitt hefur hátíðina að undanförnu.

Hún segir ákvörðunina tekna að vandlega athuguðu máli. „Það er ákveðin fegurð að viðurkenna að allt hefur sinn líftíma og mikilvægt að skapa rými fyrir komandi kynslóðir til að koma með eitthvað nýtt.

Þetta er lífræn þróun en svo er hægt að segja að listahátíð ungs fólks sé komin á tíma þegar hún er orðin 25 ára.LungA-hátíðin er ekki bara hátíðin sjálf eða nafnið. Hún er ákveðið andrúmsloft sem hverfur ekki þótt hátíðin sjálf taki enda.“

Styrkir rýrnar í verðbólgu


Þórhildur segir hátíðina alla tíð hafa haldið vinsældum sínum, jafnvel hafi ásókn í hana aukist síðustu ár. Hún bætir þó við að stærra sé ekki alltaf betra, erfiðra geti reynst að halda utan um stærri viðburði. Á sama tíma hafi ytra umhverfi stórhátíða versnað sem sjáist með annars í því að sögu Fiskidagsins mikla á Dalvík sé nú lokið.

„Viðburðaskipulag er afar krefjandi. Í verðbólgu lækkar til dæmis raunvirði styrkja. Á sama tíma og hátíðin er þakklát öllum sínum styrktaraðilum í gegnum tíðina þá teljum við tækifæri til að opna umræðuna um þörfina á að endurskipuleggja styrkjakerfið ofan frá.

Hátíðin stendur undir sér fjárhagslega. Hún hefur þó aldrei getað haft starfsmann í fastri vinnu heldur reitt sig á sjálfboðaliðavinnu. Lykilskipuleggjendur hafa fengið eitthvað sem nefna mætti þakklætisþóknun því hún hefur ekki verið í neinu samræmi við vinnuframlagið. Á sama tíma aukast kröfurnar sem gerðar eru til svona hátíða og þar með kostnaðurinn. Umhverfið er því orðið mjög krefjandi. Mögulega er það svo að hátíðirnar hafa orðið of stórar.“

Fegurð í að geta kvatt


Þórhildur Tinna segir viðbrögðin við ákvörðuninni, sem tilkynnt var í byrjun vikunnar vera eftirsjá. „Það syrgja allir sem standa að hátíðinni en að sama skapi er mikilvægt að ræða áskoranirnar og vita hvenær eigi að hætta. Okkur finnst ekki rétt að tala um ákvörðun, þetta er frekar lífræn þróun. Það er fegurð í að geta kvatt og um leið veitt öðrum hvatningu til að halda áfram.“

Þórhildur Tinna kveðst bjartsýn á að nýir viðburðir komi í stað LungA. „Landslagið er breytt frá því sem það var fyrir 25 árum. Ég held það sé ýmislegt gott að grassera, bæði í opinberum kerfum og í grasrótinni. Nú er til dæmis komin barnamenningarhátíð á Austurlandi. Við lítum því bjartsýn til framtíðar.“

Hátíðin í sumar verður haldin 15. – 21. júlí. Skipulagning hennar stendur yfir. „Við höfum verið að undirbúa 25 ára afmæli hátíðar þar sem við ætlum að líta yfir farinn veg. Við hvetjum vini LungA til að hafa samband og ætlum þess vegna að halda dagskránni opinni sem lengst. Annars verður skipulagið svipað.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.