Síðasti leikur Sigmars Hákonar: Það hefur verið gaman í körfubolta
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 27. mar 2025 16:03 • Uppfært 27. mar 2025 16:04
Sigmar Hákonarson, leikjahæsti körfuknattleiksmaður Hattar, leikur í kvöld sinn síðasta leik fyrir liðið þegar það tekur á móti Álftanesi í síðustu umferð úrvalsdeildar karla. Sigmar á að baki 15 ára feril í meistaraflokki og segir rétt að láta staðar numið eftir meiðsli síðustu ára.
„Ég held það sé kominn tími á að hætta. Ég er kominn með fjölskyldu og hef glímt við mikil meiðsli síðustu 3-4 ár. Bakið gaf sig og það hefur haft áhrif á fleira.
Ég hef stundum íhugað til hvers ég væri að þessu þegar meiðslin en mér hefur aldrei fundist góður tími til að hætta. Í fyrsta lagi hefur þetta verið frábær hreyfing og í öðru lagi félagsskapurinn frábær. Það er búið að vera gaman í körfubolta.
Þegar ég var kominn yfir 200 leiki og frétti hvert metið væri ákvað ég að reyna að ná því. Það hélt mér í það minnsta inni í vetur.“
Samkvæmt upplýsingum frá körfuknattleiksdeild Hattar leikur Sigmar í kvöld sinn 340. keppnisleik fyrir meistaraflokk Hattar. Eldra metið átti Hannibal Guðmundsson, 324 leiki og þriðji er Viggó Skúlason með 259 leiki.
Koma Viðars vendipunktur fyrir félagið
Sigmar spilaði sinn fyrsta meistaraflokksleik tímabilið 2010/11 þegar Viggó var þjálfari liðsins. „Ég man ekki nákvæmlega eftir fyrsta leiknum heldur augnablikum frá þessu tímabili, sem í hreinskilni sagt var frekar lélegt.“
Sumarið 2011 tók Viðar Örn Hafsteinsson við liðinu og hefur þjálfað það síðan. Sigmar og Viðar hafa lengi fylgst að því Viðar var líka þjálfari Sigmars í yngri flokkum Hattar í knattspyrnu. „Honum fylgdi meiri samheldni og skýrari markmið. Fyrsta tímabilið þurftu leikmenn sjálfir að finna sér gistingu í útileikjum en hjá Viðari fann félagið gistinguna og leikmenn voru saman. Munurinn á umgjörðinni þegar ég byrjaði og núna er eins og að horfa á svarthvíta þögla bíómynd frá 1920 og því sem er framleitt í dag.“
Leið Sigmars inn í meistaraflokkinn var þó ekki bein. Eftir grunnskóla hætti hann í körfubolta í tvö ár. „Ég kunni ekki við þjálfarann í 10. bekk og missti áhugann. Ég ætlaði að að einbeita mér að fótboltanum. Síðan var ég einhvern tíma spurður að því á fótboltaæfingu hvort ég væri ekki til í að koma í körfubolta á eftir. Þar fékk ég aftur fiðringinn.“
Undanúrslitin í bikarnum voru meira en venjulegur körfuboltaleikur
Aðspurður um hápunktana á ferlinum nefnir Sigmar tímabilin 2016-17 og 2017-18. Fyrra tímabilið hafi liðið verið í fyrstu deild og spáð slöku gengi en farið upp. Þótt liðið hafi aðeins unnið tvo leik í úrvalsdeildinni seinna tímabilið hafi Sigmar verið í sínu besta formi. „Ég gat hlaupið endalaust og spilaði því mikið, þótt liðinu gengi ekki velt. Eftir það fara meiðslin að koma fram.“
Hann nefnir líka undanúrslit bikarkeppninnar fyrir tveimur árum. „Ég spilaði ekki mikið í þeim leik en við að ganga inn á völlinn fékk ég fiðring í magann því ég fann að þetta var klárlega meira en venjulegur körfuboltaleikur.“
Höttur lýkur keppni í úrvalsdeildinni að sinni í kvöld. Nokkrar vikur eru síðan ljóst varð að liðið væri fallið. „Við förum í leikinn til að vinna, það er alltaf skemmtilegra að vinna. Ég spila þær mínútur sem ég fæ, því fleiri því betra enda vill maður alltaf spila en ég ræð því ekki.“