Skip to main content

Síðustu dagar veitingahússins USS Bistro á Vopnafirði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 12. ágú 2025 11:38Uppfært 12. ágú 2025 11:41

Eftir röskan mánuð mun veitingastaðurinn USS Bistro í hinu merka húsi Kaupvangi í hjarta Vopnafjarðar loka dyrum sínum hinsta sinni eftir þriggja ára rekstur.

Það voru stöllurnar Selja Janthong og Helga Kristín Tryggvadóttir sem opnuðu staðinn sumarið 2022 og vildu með því reyna að auka lífið í þessu hjarta bæjarins en ekki síður bjóða gestum og ferðafólki upp á val um veitingar innan bæjarmarkanna. Frá upphafi hefur matseðilinn verið með asísku ívafi og sá eini á Austurlandi sem boðið hefur upp á slíkt um hríð.

Fékk staðurinn strax góðar viðtökur og nú þremur árum síðar eru einkunnir staðarins á samfélagsmiðlum fyrir veitingar og þjónustu á bilinu 4,5 til 5 stjörnur sem er með því hæsta sem gerist fyrir veitingahús.

Langir vinnudagar

Eftir að Helga Kristín datt úr skaftinu hefur Selja ein rekið staðinn og reynt að halda úti þjónustu þar eins oft og lengi og henni er mögulegt en nokkrar ástæður eru fyrir að hún ætlar að setja punkt við reksturinn um miðjan september.

„Þær eru af ýmsum toga en það er nokkuð lýjandi að standa í þessu að mestu ein míns liðs. Það hefur gengið misvel að fá fólk til starfa mér til aðstoðar þessi ár svo það er stór hluti ástæðunnar því reksturinn er tímafrekur og töluverður erill getur verið á annatímum sem tekur toll. Þá er líka eitt vandamálið að hér er ekkert þriggja fasa rafmagn sem gerir það tímafrekara en ella að útbúa matinn fyrir gestina. Þetta sannarlega leiðinlegt en ég reikna nú með að loka staðnum þann 14. september.“

Það einmitt vegna manneklu sem opnunartími USS Bistro styttist síðar í þessari viku en eftir það fram til lokunardagsins verður aðeins opið milli klukkan 18 og 20.30 frá fimmtudegi til sunnudags. Einnig þess vegna er ekki lengur hægt að taka móti neinum stórum hópum.

Selja í eldhúsinu á USS Bistro á síðasta ári en matur staðarins fær toppdóma á samfélagsmiðlum. Nú er aðeins mánuður til stefnu að prófa krásirnar í Kaupvangi. Mynd AE