Skip to main content

Sífellt fleiri nýta sér Loftbrúna í fluginu

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 30. jan 2024 14:33Uppfært 30. jan 2024 14:36

Landsbyggðarfólk flaug á liðnu ári rétt tæplega 80 þúsund flugleggi sem niðurgreiddir voru með svokölluðum Loftbrúarafslætti.

Engum á að koma á óvart að fleiri og fleiri nýti sér Loftbrúna sem nú hefur verið í boði fyrir velflesta íbúa landsbyggðarinnar um tæplega fjögurra ára skeið enda sýna tölur Hagstofu Íslands að flugfargjöld hafa hækkað nokkuð á þessu tímabili. Með Loftbrúarafslættinum getur hver og einn einstaklingur búsettur vel utan höfuðborgarsvæðisins flogið sex flugleggi ár hvert og fengið hvern legg flugsins á afsláttarkjörum sem nema um 40% af kostnaði hverju sinni.

Til marks um fjölgun þeirra sem nýta sér afsláttarkjörin nú voru innan við 50 þúsund ferðir alls niðurgreiddar árið 2021 gegnum Loftbrú. Nokkuð athyglisvert er hversu mikill munur er á milli mánaða hve margir taka flugið til og frá. Í janúar síðastliðnum voru 8.888 leggir notaðir en notkunin féll um helming í nýliðnum desember þegar aðeins 4.823 leggir voru brúkaðir í heildina á landsvísu.

Þó afsláttarkjör Loftbrúarinnar komi sér vafalaust vel eru blikur á lofti og það tengist fyrirhuguðum bílastæðisgjöldum sem Isavia hyggst leggja á þá sem nýta bílastæði við Egilsstaðaflugvöll, Akureyrarvöll og Reykjavíkurflugvöll við lengri ferðir. Þó því verkefni sem átti að taka gildi um þessar mundir hafi verið frestað fram á vorið voru allnokkrir gagnrýnendur vegna þessara frétta búnir að reikna út að bílastæðiskostnaður í tvær til þrjár vikur til dæmis, sem er algengt ef fólk er að fara erlendis í frí, myndi fara langt með að núlla út þann ávinning sem fólk fær með Loftbrúnni í hvert skipti.