Sigmundur Davíð: Vogunarsjóðirnir verða líka að deila tapinu af hruninu

sigmundur_david_feb13.jpg

Formaður Framsóknarflokksins segir að taka verði á móti fulltrúum vogunarsjóðanna sem eiga og ráða íslensku bönkunum af fullri hörku. Samningsstaðan við þá eigi að vera sterk í ljósi gjaldeyrishaftanna. 

 

„Ég hef hitt fulltrúa þessara sjóða. Þeir hittu okkur uppi á þingi. Ég sat við borð með sex lögfræðingum frá New York, frá bestu lögfræðistofum í heimi. Þeir voru mjög kurteisir. Sögðust vilja vinna með okkur í að leysa okkar mál. 

En ef við leysum þau ekki eins og þeir vilja þá lendir það á okkur, til dæmis með skertu lánshæfismati. Þetta er nákvæmlega það sama og bresku og hollensku lögfræðingarnir sögðu í Icesave-málinu – og viðbrögðin eru þau sömu. Þeir ganga eins langt og þeir geta.“

Þannig lýsti Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, upplifun sinni af fundi með fulltrúum vogunarsjóðanna sem hann segir ráðandi eigendur í Íslandsbanka og Arionbanka á opnum fundi Framsóknarmanna á Austurlandi á Egilsstöðum í síðustu viku.

Vita af áhættunni út af gjaldeyrishöftunum

Á fundinum kom fram að sjóðirnir hefðu komist til valda í bönkunum eftir hrun, uppreiknað lánin og innheimt af þeim af fullu. Ríkissjóður ráði engu inna bankanna enda eign hans algjör minnihlutaeign.

Sigmundur Davíð fullyrti samt að samningsstaða Íslands væri sterk. „Vogunarsjóðirnir vita að þetta er áhættufjárfesting. Þeir geta ekki farið með hagnaðinn út úr landinu út af gjaldeyrishöftunum. Menn verða að deila tapinu af hruninu.“

Sigmundur Davíð sagði að ekki hefði verið nóg gert til að leysa vanda íslenskra heimila á undanförnum árum. „Við þurfum sterk heimili, það eru þau sem kaupa afurðirnar að lokum.“

Hann tók undir orð Ólafs Ísleifssonar, hagfræðings, sem menn hefðu orðið of fastir í þeirri „sósíalísku hugsun“ um ójafnréttið sem hlytist af því ef „gaur sem keypti sér túttujeppa“ fengi leiðréttingu eins og þeir sem þyrftu á henni að halda. „Raunin er sú að menn hafa bara komið til móts við þá sem fóru óvarlega,“ sagði Sigmundur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.