Skip to main content

Sigurður Gunnarsson býður sig fram í annað sætið

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 10. feb 2022 16:17Uppfært 11. feb 2022 09:08

Sigurður Gunnarsson, viðskiptafræðingur, býður sig fram í annað sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Múlaþingi fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor. Kosið verður í efstu sæti listans með prófkjöri þann 12. mars.


Sigurður er 52 ára, fæddur og uppalinn í Smáíbúðahverfinu í Reykjavík en hefur búið á Egilsstöðum í rúm 17 ár. Hann hefur starfað hjá Alcoa Fjarðaáli undanfarin 15 ár, í dag sem ferilseigandi.

Hann var stúdent frá Verzlunarskóla Íslands og kláraði viðskiptafræði frá Háskóla Íslands áður en hann bætti við sig meistaragráðu í forustu og stjórnun við Háskólann á Bifröst.

Hann hefur verið varabæjarfulltrúi síðustu fjögur ár auk þess að vera formaður íþrótta- og tómstundanefndar Fljótsdalshéraðs og varaformaður fræðslunefndar 2018-20. Hann er formaður Sjálfstæðisfélags Fljótsdalshéraðs og Borgarfjarðar eystri.

„Í mínum huga snúast sveitarstjórnarmál um að íbúar fái sem besta þjónustu, að vel sé farið með skattfé og hagsmuna íbúa gætt. Gæta verður þess að gjaldskrár sveitarfélagsins séu samkeppnishæfar og ekki hærri en almennt gerist,“ segir Sigurður í tilkynningu.

„Helstu áherslumál mín eru að sveitarstjórn beiti sér, með ákveðnari hætti, fyrir því að koma af stað byggingu íbúðarhúsnæðis. Leita þarf nýrra lausna í samráði við verktaka og aðra hagsmunaaðila til að fjölga nýbyggingum.

Ég set atvinnumál á oddinn en Múlaþing býr yfir mörgum styrkleikum sem hægt er að nýta til uppbyggingar á öflugu og fjölbreyttu atvinnulífi. Þetta er langtímaverkefni þar sem sífellt þarf að strá fræjum og nýta þau tækifæri sem koma upp.

Fræðslumál eru mér hugleikin og er mikilvægt að kennarar búi við góðar starfsaðstæður í krefjandi starfsumhverfi og að þjónusta sérfræðinga sé aukin í skólum. Mikilvægt er að bæði kennarar og nemendur hafi góðar aðstæður auk góðs tækja- og tölvubúnaðar sem fullnægja nútíma kennsluháttum. Tryggja þarf að viðeigandi þjónusta og aðstæður séu til staðar fyrir eldri íbúa sveitarfélagsins.

Ég vil halda áfram öflugum stuðningi við íþrótta- og tómstundastarf og mun beita mér fyrir hækkuðu tómstundaframlagi og góðu samstarfi við grasrótastarf íþróttahreyfingarinnar. Þá er stöðugt viðfangsefni að halda ríkisvaldinu við efnið, til dæmis í sambandi við niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar og samgöngumál en þær stórframkvæmdir sem fyrirhugaðar eru í sveitarfélaginu þarf að hefjast handa við.“

Sigurður er kvæntur Hrönn Magnúsdóttur grunnskólakennara. Þau eiga fjögur börn á aldrinum 13-23 ára.