Síldarvinnslan snéri við flutningaskipi á leið til Odessa

Gengi bréfa í Síldarvinnslunni í Neskaupstað hefur fallið síðustu daga vegna hernaðarátaka í Úkraínu, sem er mikilvægur markaður loðnu. Vörusending á leið þangað var stöðvuð og skipi snúið viðum leið og fréttir bárust af innrás Rússa.

Þetta kemur fram í tilkynningu fyrirtækisins til Kauphallarinnar í morgun.

Þar segir að Úkraína hafi verið eitt mikilvægasta viðskiptaland Síldarvinnslunnar síðustu ár og þangað sé selt mikið af síld, makríl og loðnu. Undanfarin ár hafi Úkraína keypt um 1/3 frosinna uppsjávarafurða og meira þau ár sem ekki var veidd loðna.

Vegna þessa fylgjast stjórnendur Síldarvinnslunnar náið með þróun mála. Fyrirtækið á útistandandi viðskiptakröfur upp á um níu milljónir dollara, eða meira en 1,1 milljarð króna í landinu. Auk þess eru í geymslum þess loðnubirgðir ætlaðar þangað. Ekki er hægt að áætla hver áhrifin verða af átökunum á reksturinn.

Flutningaskipi með birgðum á leið til Odessa, einnar þeirra borga sem orðið hafa fyrir sprengjuárásum Rússa, var snúið við fyrir helgi og stefnir aftur til Íslands.

Gengi bréfa í Síldarvinnslunni hefur fallið í Kauphöllinni eftir að fréttir bárust af skærum í Úkraínu. Þau hafa hækkað heldur aftur í morgun en voru fyrir helgi komin niður undir 90, sem er það lægsta frá því fyrir loðnuvertíð. Það er þó hátt í samhengi við að gengi bréfanna, þegar þau voru fyrst skráð á markað í byrjun sumars, var rúmlega 60.

Í tilkynningu Síldarvinnslunnar eru stríðsátökin sögð hamtíðindi og hugur Síldarvinnslufólks sé hjá viðskiptavinum í Úkraínu sem og fólkinu öllu þar. „Öll fordæmum við þær gegndarlausu árásir sem úkraínska þjóðin er að verða fyrir.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.