Sitthvað að athuga með frístundabyggð að Eiðum að mati Skógræktarinnar
Skógræktin hefur sent sveitarfélaginu Múlaþingi nokkrar athugasemdir vegna áætlana um fyrirhugaða frístundabyggð í landi Eiða sem landeigendur eru spenntir fyrir en þar vilja þeir skipuleggja allt að 50 frístundalóðir.
Athugasemdir Skógræktarinnar þykja nægilega alvarlegar til að umhverfis- og framkvæmdaráð hefur óskað eftir áliti heimastjórnar Fljótsdalshéraðs vegna þeirra en það er heimastjórnin sem einnig er sérstök náttúruverndarnefnd fyrir svæðið sem henni tilheyrir.
Fram kemur í athugasemdunum, meðal annars, að birkiskógurinn við Eiða falli ekki, eins og sumir hafa talið, undir ákvæði laga um náttúruvernd og njóta þannig ekki lögformlegrar verndar. Það sé þó til mikils að vinna með því að stuðla að verndun hans. Óumdeilt sé þó að að þurfi að ryðja allt að sex hekturum af gróðri og skóg burt eins og áætlanir landeigenda gera ráð fyrir komi til kasta laga sem kveða á um að varanlega eyðing skóga sé óheimil nema til komi mótvægisaðgerðir framkvæmdaraðila og jafnframt þurfi samþykki fyrir öllu slíku frá Skógræktinni sjálfri. Slíkar aðgerðir skulu hefjast innan tveggja ára frá eyðingunni.
Annað vandamálið sem Skógræktin minnist á er að eitt meginmarkmið laga um skóg og skógrækt sé að auðvelda aðgengi fólks að útivist í skóglendi. Ástæða sé hugsanlega í því samhengi til að setja reglur um með hvaða hætti lóðareigendur geti girt lóðir sínar af og þannig lokað verulega á aðgengi almennings.
„Lóðirnar á skipulagssvæðinu eru samtals 50, og hver um sig að meðaltali rétt rúmlega 0,54 hektarar, samtals rúmlega 27 ha af 65 ha svæði sem eru undir aðalskipulagsbreytingartillögunni. Í lið 3.2.6. um skilmála um frágang lóða og girðinga segir að „efnisval og útlit girðinga skuli samræmt, þær skuli vera snyrtilegar og þeim vel við haldið.” Hér er rétt að velta því upp hvort það merki að girða megi af hverja lóð fyrir sig, eftir því sem umráðamanni hverrar lóðar sýnist, og þannig girða af fyrir umferð allt að því 27 hektara af skóginum. Það væri ef til vill eðlilegt að kveðið sé á um það í skilmálum að ekki megi girða lóðir algerlega af fyrir gangandi umferð.“