Skip to main content

Sjaldæft að sjá þrumur og eldingar á þessum árstíma

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 04. mar 2024 11:27Uppfært 04. mar 2024 12:32

Íbúar á bæði Egilsstöðum og Seyðisfirði urðu varir við þrumur og eldingar á tólfta tímanum í gærkvöldi. Veðurfræðingur segir slík veðurfyrirbrigði sjaldgæf á þessum árstíma en sérstök skilyrði hafi myndast í gærkvöldi.


Íbúar á Egilsstöðum urðu varir við 5-10 eldingar undir miðnætti í gærkvöldi. Austurfrétt hefur einnig spurnir af eldingum á Seyðisfirði um svipað leyti. Á vefnum Blitzortung.org er haldið utan um eldingar á heimsvísu og í kortum þar má sjá eldingar skráðar yfir Egilsstöðum í gærkvöldi.

Björn Sævar Einarsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir ekki algengt að eldingar sjáist á þessum slóðum á þessum árstíma en það gerist.

„Það hefði frekar mátt búast við þeim í kringum Suðausturmið en þarna gengu skil yfir um miðnættið. Þegar þau lenda á fjöllunum eykst uppstreymi og skúraklakkar myndast sem eru nógu öflugir til að framkalla eldingar,“ útskýrir hann.

Veðrabreyting varð í gærkvöldi sem gaf tóninn fyrir það sem koma skal næstu daga. Eftir frekar stöðugt frost síðustu vikur tók hitinn að hækka í gær og var í gærkvöldi orðinn þrjár gráður á Egilstöðum. Spáð er hlýindum með vindi og úrkomu í að minnsta kosti í dag og morgun en áframhaldandi hlýindum eins langt og spár ná.

„Það er er orðið frostlaust upp á fjallatoppa. Það er spáð nokkurri uppsafnaðri úrkomu næstu tvo sólarhringa á Austfjörðum sem getur valdið leysingum. Það er fylgst með því.“