Skip to main content

Sjaldgæft að raunverulega reyni á snjóflóðavarnir

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 03. okt 2023 09:47Uppfært 03. okt 2023 09:50

Upplýsingar úr snjóflóðunum í Neskaupstað í lok mars nýtast til að bæta hönnun snjóflóðavarna til framtíðar. Búið er að bæta í snjóflóðavöktun fyrir ofan bæinn fyrir komandi vetur.


Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Hörpu Grímsdóttur, deildarstjóra á ofanflóðadeild Veðurstofu Íslands, á íbúafundi í Egilsbúð í Neskaupstað í gær.

Þar fór hún meðal annars yfir þá vinnu sem lagt hefur verið í síðan í lok mars. „Þetta voru voru óvenjuleg og merkileg flóð. Það er ekki oft sem við fáum stór flóð á varnir í heiminum. Þess vegna eru þau álitin merkileg. Snjóflóðafræðingar um allan heim eru að skoða gögnin til að læra af þeim,“ sagði hún.

Það sérstæða við snjóflóðin var iðufaldur, heldur léttari snjór sem ferðast hraðar en hinn hefðbundni kjarni. Talið er að iðufaldurinn hafi valdið hvað mestum skaða í flóðunum. Starfsfólk Veðurstofunnar hefur að undanförnu unnið með austurrískum sérfræðingum í að bæta hermilíkön fyrir snjóflóð sem falla hérlendis. Á þeirri vinnu byggja tillögur að endurskoðuðu hættumati undir varnarmannvirkjum í Neskaupstað. Von er á þeim eftir áramót.

Þessu til viðbótar hefur snjóflóðaeftirlitið verið eflt með fleiri mælitækjum og breyttu verklagi inni á ofanflóðadeildinni, meðal annars betra aðgengi tryggt þar að gögnum. Áformað er að hefja framkvæmdir við síðasta hluta snjóflóðavarnagarða ofan Neskaupstaðar á næsta ári. Þeir verða undir Nes- og Bakkagiljum en flóðið sem lenti á íbúðarhúsum 27. mars kom úr Nesgili. Þar til varnargarðarnir verða tilbúnir má búast við að rýmt verði við sakleysislegri aðstæður en áður á óvörðum svæðum.

Samhliða því sem snjóflóðavöktunin hefur verið efld í Neskaupstað er áfram bætt við vöktunartækjum vegna skriðuhættu á Seyðisfirði og Eskifirði.