Sjálfbær framtíð í mannvirkjagerð þema Umhverfisráðstefnu Austurlands
Hvernig má skipuleggja, byggja og nýta auðlindir með sem allra bestum, vistvænum og sjálfbærum hætti í framtíðinni er þema stórrar ráðstefnu sem stendur fyrir dyrum á fimmtudaginn kemur í Sláturhúsinu á Egilsstöðum.
Um er að ræða Umhverfisráðstefnu Austurlands en undirþemað er Hvernig byggjum við árið 2050. Þar hafa leitt saman hesta sína Austurbrú, verkfræðistofan EFLA og Eyglóarverkefnið til að koma viðburðinum á koppinn en fjölmargir athyglisverðir fyrirlestrar frá sérfræðingum á þessu sviðum fara þar fram. Allir eru velkomnir en nauðsynlegt er að skrá komu sína gegnum vef Austurbrúar.
Að sögn Signýjar Ormsdóttur hjá Austurbrú, sem haft hefur veg og vanda af skipulagningu ráðstefnunnar, er hér nánast um allra fyrstu slíku ráðstefnuna í landinu öllu hvað efnið varðar.
„Almennt séð eru byggingar og byggingaframkvæmdir nokkuð mengandi heilt yfir og þar eins og víðar eru áköll um breytingar til batnaðar. Okkur langar með þessari ráðstefnu að ræða til dæmis vistvænt skipulag og við að taka efnisnotkunina meðal annars til umfjöllunar. Hvernig má breyta og bæta þar með tilliti til sjálfbærni. Á ráðstefnunni erum við að heyra í margverðlaunuðu fólki í þessum geira eins og til dæmis Sunnu Ólafsdóttur Wallevik sem er hér frá Egilsstöðum og er margverðlaunuð fyrir steypuþróunarvinnu. Við tökum líka fyrir skógana hér og hvernig þeir geta nýst til að bæta úr svo ekki sé minnst á alla endurvinnslu sem Arnhildur Pálmadóttir, handhafi umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs, hefur kynnt sér í þaula.“
Fjöldi annarra fræðinga flytja erindi á ráðstefnunni. Jóhanna Helgadóttir mun fara yfir mótun skipulags með sem minnstum neikvæðum umhverfisáhrifum, Skarphéðinn Smári Þórhallsson fer yfir hvernig nýr íbúðakjarni í Fljótsdal tekur mið af sjálfbærum og vistvænum leiðum og Alexandra Kjeld fjallar um hvernig draga má úr umhverfisáhrifum mannvirkja. Helga Jóhanna Bjarnadóttir, efna- og umhverfisverkfræðingur og viðurkenndur matsmaður fyrir vistvæna vottun mannvirkja er ráðstefnustjóri.
Signý segir að slík ráðstefnu með þessari ákveðnu nálgun hafi líklega aldrei áður verið haldin á Íslandi og spennandi verði fyrir marga að taka daginn frá en ráðstefnan stendur frá klukkan 10 um morguninn fram til klukkan 16 á fimmtudag.