Sjálfboðaliðar aðstoða mögulega þolendur ofbeldis í Bræðsluvikunni
Einir tíu sjálfboðaliðar verða til taks frá miðvikudegi og fram á sunnudag fyrir hugsanlega þolendur ofbeldis meðan á Bræðsluvikunni stendur á Borgarfirði eystra.
Framtakið er hugarfóstur Söru Rósar Guðmundsdóttur frá Borgarfirði en hún hefur hugleitt að koma slíkri aðstoð á koppinn um eins árs skeið. Ástæðan var tiltekið atvik sem átti sér stað á Bræðsluhelginni 2024 en síðan þá hefur hún unnið að stofnun hóps um verkefnið sem kallast Friðsemd.
„Það gerðist hér tiltekið atvik í fyrra sem svo vatt töluvert upp á sig og við þær kringumstæður reyndust engin raunveruleg úrræði í boði á staðnum. Hér vissulega lögregla og björgunarsveitir sem standa sig vel en ég veit að þolendur ofbeldis þurfa oft meiri og dýpri stuðning eða úrræði við slík áföll svo ég ákvað að kynna mér málin og stofna þennan Friðsemdarhóp.“
Skýr viðbragsáætlun til staðar
Vel hefur verið tekið í framtak Söru Rósar og segir hún hópinn nú samanstanda af tíu einstaklingum sem ætla að standa vaktina og veita öllum þeim aðstoð sem óska ef þörf verður á. Unnið verður eftir nýrri skýrri viðbragðsáætlun.
„Ég komst að því á þessum tíma að hér var engin sérstök viðbragðsáætlun vegna ofbeldismála og reyndar rakst ég nokkuð á veggi þegar ég fór að kynna mér hvernig best væri að standa að þessu. Það virðist raunin víða að engar slíkar áætlanir eru til staðar ef veita þarf aðstoð eða úrræði. Þetta finnst mér skipta sérstaklega miklu máli hér því við erum mjög langt frá þjónustu almennt enda klukkustund að fara til Egilsstaða héðan. Það má segja að við ætlum að taka aðeins betur utan um fólk sem lendir í einhverju en annars hefur verið í boði.“
Frábær viðbrögð allra
Sara hefur fengið frábær viðbrögð frá skipuleggjendum Bræðslunnar sem og öðrum þeim er halda úti skemmtunum í bænum þessa vikuna og fengið mörg góð ráð frá samtökum á borð við Stígamótum, Bjarkarhlíð og Aflinu auk lögreglunnar.
Sjálfboðaliðarnir í Friðsemd verða bæði með opinn síma allan sólarhringinn frá miðvikudeginum en verða jafnframt á vappinu kringum viðburðina sem fram fara næstu dagana. Hópurinn er með eigið húsnæði og aðstöðu til að hlúa að þolendum og geta fólk leitað til þeirra hvort sem um er að ræða líkamlegt, andlegt eða kynferðislegt ofbeldi. Hjálparsími Friðsemdar er 765 3773.
Blessunarlega hafa ofbeldismál sjaldan komið upp meðan Bræðsluhátíðin stendur en fyrir löngu er orðið uppselt á hátíðina nú. Mynd Bræðslan