Skip to main content

Sjómannadagsblað Austurlands 2010 er komið út

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 04. jún 2010 09:51Uppfært 08. jan 2016 19:21

Það er 16. árgangur Sjómannadagsblaðs Austurlands sem nú lítur dagsins ljós og er um 90 blaðsíður að stærð. Hátt á annað hundrað nýrra og gamalla ljósmynda prýða blaðið en efnið tengist sjómennsku og útgerð á Austurlandi, fyrr og síðar.

forsida_sjoaust_2010_.jpgÁ meðal efnis í Sjómannadagsblaði Austurlands í ár er ítarleg frásögn af hörmulegu sjóslysi er Eskifjarðarbáturinn Hrönn SH-149 fórst í mynni Reyðarfjarðar árið 1979. Sex sjómenn voru um borð og fórust þeir allir en Hrönn var að koma af vertíð frá Breiðdalsvík.

Í blaðinu er einnig myndræn frásögn frá því er Fáskrúðsfirðingurinn Albert Kemp fór þrjá siglingatúra með Vetti SU-103 haustið 1957 og Eskfirðingurinn Guðni Ölversson rifjar upp síldveiðitúra í Norðursjónum sumarið ´68. Heimir Þór Gíslason segir frá kynnum sínum af íslenskum Neanderdalsmanni og Ingvar Níelsson segir sögur af samferðamönnum hans á Norðfirði í kringum 1950.

Haraldur Bjarnason, fyrrum fréttamaður RÚV, kallar fram minningabrot að austan og lesendur fá að kynnast sjóarabloggi samtímans. Hilmar Snorrason, skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna, ritar um slysavarnir í 25 ár og lesendur fá að kynnast, með hjálp á þriðja tug ljósmynda, hvernig kolmunnahol gengur fyrir sig. Margt fleira mætti telja.

Ritstjóri Sjómannadagsblaðs Austurlands er Kristján J. Kristjánsson, frá Norðfirði.kristjan_j_kristjansson.jpg

Blaðið fer í söludreifingu um allt Austurland nú um helgina en þeir sem ekki búa á Austurlandi geta nálgast það á Grandakaffi í Rekjavík eða pantað á vefnum www.sjoaust.is <http://www.sjoaust.is/>  og þurfa viðtakendur ekki að greiða sendingarkostnað.