Skip to main content

Sjómenn skrifa undir kjarasamning: Lengri samningstími fyrir lífeyrisréttindi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 06. feb 2024 15:37Uppfært 06. feb 2024 15:40

Sjómannasambands Íslands og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi skrifuðu eftir hádegi í dag undir nýjan kjarasamning. Hann gildir í níu ár en er uppsegjanlegur eftir fimm ár. Formaður sjómannadeildar AFLs starfsgreinafélags segir lengri samningstíma hafa skapað grundvöll fyrir mikilvægum framförum eins og auknum lífeyrisréttindum.


Ár er síðan síðast var skrifað undir kjarasamning en sá var felldur í atkvæðagreiðslu. Langur gildistími, tíu ár, var meðal þess sem gagnrýnt var við hann. Nýi samningurinn gildir ári skemur og felur í sér uppsagnarákvæði.

„Það hefur verið reynt að taka á flestum þeim atriðum sem gagnrýnd voru,“ segir Sverrir Mar Albertsson, formaður sjómannadeildar AFLs, sem var meðal þeirra sem skrifaði undir samninginn í Karphúsinu í dag.

Leyst úr veikindaréttindum


Stærsta breytingin frá núverandi kjörum sjómanna er að þeir fá 15,5% lífeyrisréttindi eins og aðrir launþegar. Þeir hafa núna 12% en við bætast 3,5% í tilgreinda séreign. Veikindaréttur er efldur og tryggt að sjómenn í skiptimannakerfi halda fullum hlut í fjóra mánuði. Sverrir segir að til þessa hafi veikindarétturinn grundvallast á sjómannalögum og með þessu sé hoggið á endalausan ágreining um túlkun veikindaréttar sjómanna.

Hann bætir við að sjómenn hafi þurft að bjóða fram langan gildistíma til að ná fram stærri framförum í réttindum. „Það var hugmynd frá Austfjörðum á sínum tíma að gera langan samning. Það var mat AFLs að það yrði að bjóða útgerðinni eitthvað sem hún mæti til verðmæta, sem var samningstíminn. Við það losnaði um annað í viðræðunum, svo sem lífeyrisréttindin.“

Kauptrygging, sem ekki hefur hækkað frá árinu 2019, fer úr 326.000 í 454.000 krónum á mánuði og aðrir launaliðir hækka á sömu forsendum. Eftir fjögur ár fá sjómenn desemberuppbót eins og viðgengst á almennum markaði en eftir samþykkt samningsins verður greidd 400.000 króna eingreiðsla. Þá hefur ákvæði um yfirísun afla á erlenda markaði verið fellt út.

Reiknar með tvísýnni atkvæðagreiðslu


Samningurinn fer í kynningu á næstu dögum og mun AFL meðal annars standa fyrir fundum um þá. Kynningu lýkur á hádegi næsta mánudag og hefst þá atkvæðagreiðsla sem stendur til föstudags. Sverrir segir að af fenginni reynslu sé ómögulegt að spá fyrir um hvernig hún fari.

„Allir þeir sjómenn sem við við formennirnir höfum talað við eru jákvæðir og vilja klára málið. Það hefur verið lögð áhersla á samráð við grasrótina og í síðustu viku var fundur í húsi sáttasemjara þangað sem sjómenn voru hvattir til að mæta. Þangað fóru fimm starfandi sjómenn víða af svæði AFLs. Alls sóttu fundinn um 40 sjómenn, farið var yfir samningsdrögin og samstaða var um að skrifa undir. En við heyrum aldrei í öllum.

Ég tel að atkvæðagreiðslan verði tvísýn. Ég óttast mest að við verðum samningslausir í langan tíma í viðbót ef samningurinn verður felldur. Á meðan verða sjómenn af þeim réttindum sem samningurinn felur í sér.

Auðvitað hefðum við viljað ná meiri árangri en eftir fjögurra ára viðræður þá er það mat okkar að ekki verið lengra komist nema með átökum og sjómenn eru ekki á einu máli um vilja til verkfalla. Ég vænti þess að sjómenn kynni sér samningana áður en þeir taka ákvörðun.“

Mynd úr safni. Mynd: Ómar Bogason