Sjúklingum forgangsraðað eftir hve mikið liggur á
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 10. mar 2022 16:56 • Uppfært 10. mar 2022 17:00
Þeim sem leita heilbrigðisþjónustu á Austurlandi er forgangsraðað eftir hversu mikið liggur á í hverju tilviki. Mikil forföll eru meðal starfsfólks Heilbrigðisstofnunar Austurlands vegna Covid-smita.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá stofnuninni í dag. Þar segir að erfitt sé að manna starfsstöðvar vegna fjölda smita. Stjórnendur hittist hvern morgun til að manna stöðuna.
Starfsfólks HSA hefur farið á milli starfsstöðva og tekið vaktir þar sem þörfin er mest. Því eru færðar þakkir fyrir sveigjanleika og Austfirðingum fyrir skilning.
„Við gerum okkar allra besta til að tryggja órofinn rekstur, en þó er ljóst að við erum að forgangsraða erindum eftir bráðleika og munum þurfa þess enn um sinn.“
Veiran hefur víða reynst skæð í austfirskum þorpum síðustu daga. Þannig hefur Austurfrétt spurnir um að hún hafi loks fyrir tveimur vikum náð niður á Borgarfjörð, þangað sem hún hafði ekki komið áður en smitað fjölda Borgfirðinga. Hún hefur einnig herjað á Breiðdælinga þar sem leikskólinn hefur verið lokaður nær alla vikuna.