Sjúkraflugið lengst frá Austfjörðum og Vestfjörðum
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 23. mar 2022 05:54 • Uppfært 23. mar 2022 05:56
Heildarflutningstími í sjúkraflugi hérlendis er oft langur sem hefur áhrif á sjúklinga sem þurfa þjónustu í skyndi, til dæmis vegna hjartaáfalla. Flutningstíminn er lengstur frá Austfjörðum og Vestfjörðum.
Þetta kemur fram í grein í nýjasta tölublaði Læknablaðsins þar sem rannsakaður var fjöldi sjúkrafluga eftir árum á árunum 2012-2020, útkallsflokki, ástæðu flutnings, aldri og kyni sjúklings og brottfarar og lendingarstað. Björn Gunnarsson, læknir við gjörgæsludeild Sjúkrahússins á Akureyri, Kristín María Björnsdóttir, meistaranemi í lýðheilsuvísindum og Sveinbjörn Dúason, bráðatæknir, skrifa greinina.
Á þessum tíma voru 6011 sjúklingar fluttir með sjúkraflugi hérlendis. Meirihlutinn, 54% voru karlar en ástæður flutnings voru ólíkar milli kynja. Flestir, 26% voru fluttir vegna hjartasjúkdóma en 20,7% vegna annarra ástæðna, sem oftast eru lyflæknismál og 16% vegna áverka. Hjá konum á aldrinum 20-44 ára var meðfanga eða fæðing ástæða flutnings í 30,5% tilvika. Meðalaldur sjúklinga var 64 ár.
Tveir þriðju voru fluttir til Reykjavíkur en um 20% til Akureyrar. Þar á eftir koma Egilsstaðir, Vestmannaeyjar, Ísafjörður og síðan Norðfjörður, Húsavík, Höfn, Sauðárkrókur og Bíldudalur.
Aukið flug milli stofnana
Sjúkraflug eru flokkuð í fjóra flokka eftir hve mikið liggur við. F1 er mesti forgangur og F2 næsti, en í báðum tilfellum er um lífsógn að ræða. Í flokki F3 er ástand stöðugt og í þeim síðasta, F4, eru sjúklingar fluttir milli stofnana. 25% útkalla var í flokki F1 en 22 í F2. Yngri sjúklingar eru frekar í forgangsflokkunum en eldri í F3 og F4.
Flestir sjúklinga fóru aðeins eina ferð, 93%. Sá sem oftast flaug fór 11 sinnum. Tæp 4% bjuggu ekki hérlendis. Flugunum fjölgaði á tímabilinu, voru 425 árið 2012 en flest, 878, árið 2018. Fjölgunin skýrst á aukningu á flutningi milli stofnana, flokki F4, og var þá oftast farið frá Reykjavík.
Í heildina var oftast flogið frá Akureyri, 23,5% tilvika. Þar hefur miðstöð sjúkraflugs verið frá árinu 2002. 22% tilvika voru frá Reykjavík þar á eftir eru Egilsstaðir með 14%. Þar á eftir koma Vestmannaeyjar, Ísafjörður, Höfn, Norðfjörður, Bíldudalur og Vopnafjörður.
190 mínútur meðaltalið frá Egilsstöðum
Í greininni var sérstaklega skoðaður flutningstíminn. Miðgildi var 84 mínútur, en lengsti viðbragðstími var meira en sólarhringur. Skýrst það þá af lágum forgangi og óveðri.
Heildarflutningstími er sá tími sem líður frá því að beiðni berst þar til ábyrgð á sjúklingi færist frá lækni eða sjúkraflutningamanni í sjúkraflugi til annarra heilbrigðisstarfsmanna. Við alvarleg veikindi eða slys er það á sjúkrahúsi en annars á flugvelli þegar áhöfn sjúkrabíls tekur við.
Miðgildi heildartímans var 150 mínútur og viðbragðstíma 84 mínútur. Rannsakendur benda hins vegar á að Egilsstaðir, Norðfjörður, Höfn Ísafjörður skeri sig úr hvað varðar heildarflutningstíma brottfararstaða. Á öllum þessum stöðum er hann meira en þrír tímar og yfirleitt nær því að vera 3 tímar og 20 mínútur.
Lengstur er tíminn á Ísafirði, 201 mínúta en 198 mínútur á Norðfirði, 190 á Egilsstöðum og 186 á Höfn. Þetta skýrist af mikilli fjarlægð frá Reykjavík. Flutningstíminn frá Vopnafirði var 155 mínútur, svipað og Akureyri. Meðaltal bráðatilfella var 150 mínútur á landsvísu.
Tvær og hálf klukkustund langur tími þegar mikið liggur við
Greinarhöfundar segja að þótt ýmislegt hafi áhrif á meðaltalsreikninga, sé þeim óhætt að fullyrða að 150 mínútur séu mjög langur tími þegar um sé að ræða alvarleg bráðatilfelli, svo sem vegna hjartasjúkdóma. Líklegt sé að tíminn hafi áhrif á horfur sjúklinga í slíkum tilfellum. Þess vegna þurfi að jafna aðgang að sérhæfðri heilbrigðisþjónustu, sem sé misskipt eftir búsetu.
Nefnt er til samanburðar að í Noregi eiga sjúkrabílar eða loftför með lækni um borð að geta náð til 90% íbúa innan 45 mínútna. Þar séu sjúkraflugvélar og þyrlur á nokkrum stöðum til að ná markmiðinu. Kallað er eftir að stjórnvöld móti framtíðarstefnu í sjúkraflutningum með markmiðum um útkallstíma og heildarflutningstíma í sjúkraflugi.
Lokun Reykjavíkurflugvallar hefði verstu mögulegu áhrif
Nokkrar leiðir til úrbóta eru taldar upp. Lækkandi þjónustustig á smærri flugvöllum getur valdið seinkunum og jafnvel orðið til þess að ekki hafi verið hægt að verða við beiðnum um sjúkraflug. Eins að sérstök stofnun, í eigu heilbrigðisumdæma sem noti sjúkraflugi, hafi yfirumsjón með öllu sem því kemur. Þannig sé fyrirkomulagið í Noregi. Eins skipti máli að velja réttar flutningsleiðir og að bæta yfirsýn og árangursmælingar.
Að endingu er varað við hugmyndum um lokun Reykjavíkurflugvallar. „Hún myndi hafa verstu möguleg áhrif þar sem langflestir sjúklingar með tímanæma sjúkdóma eru fluttir þangað.“