Skip to main content

Sjúkrasjóður AFLs á réttu róli

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 19. apr 2023 10:03Uppfært 19. apr 2023 10:06

Ekki er þörf á að skerða greiðslur úr sjúkrasjóði AFLs starfsgreinafélags, eins og önnur stéttarfélög hafa þurft að gera vegna aukinnar ásóknar. Þvert á móti hefur verið aukið við réttindi sjóðsfélaga síðustu ár.


„Sjóðurinn stendur vel. Á undanförnum 18 árum hefur hann tvisvar verið rekinn með halla. Annars vegar vegna ávöxtunartaps eins og víðar eftir hrun, síðan varð nokkurra hundruð þúsund króna tap fyrir tæpum áratug.

Í fyrra var síðan lítilsháttar tap enda ávöxtun léleg eins og víðast hvar,“ segir Sverrir Mar Albertsson, framkvæmdastjóri AFLs.

BHM hefur þurft að fella niður gleraugna- og tannviðgerðastyrki vegna aukinnar greiðslu sjúkradagpeninga. Ásókn í sjúkrasjóði fleiri félaga hefur aukist verulega að undanförnu.

Engra aðgerða er því þörf hjá AFLi að sinni. „Aðaltilgangur sjúkrasjóðanna er að greiða sjúkradagpeninga. Ef stöðu sjóðsins væri ógnað þá myndum við láta þær greiðslur ganga fyrir fram yfir aðra styrki.

Vegna umræðunnar um BHM getum við bent á að AFL borgar sjúkradagpeninga í allt að 120 daga upp á allt að 85% launa upp að 1.200 þúsund sem eru töluvert meiri réttindi en til dæmis hjá BHM.“

Þvert á móti hefur AFL getað bætt við réttindum síðustu ár. „Fyrir sex árum fórum við að styrkja sálfræðiþjónustu. Í fyrra greiddum við í fyrsta sinn út barneignarstyrki. Þeir námu 18 milljónum króna.

Það var heldur meira en við höfðum reiknað með, við áætluðum 10 milljónir sem skýrist af því að hlutfall ungs félagsfólks er hátt innan AFLs.“