Skip to main content

Skálinn í Firði var endurbyggður að hluta eftir aurskriðu

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 31. júl 2023 13:46Uppfært 31. júl 2023 13:55

Ljóst er að skáli í Firði í Seyðisfirði hefur verið endurbyggður að hluta eftir að hafa orðið fyrir skemmdum þegar aurskriða féll á hann um 1100. Miklar mannvistarleifar eru að koma í ljós undir skriðunni.


Í ár er þriðja sumarið sem unnið er við fornleifarannsóknir á svæði Fjarðar, sem samkvæmt Landnámu var fyrsti bærinn í Seyðisfirði. Grafið er á svæðinu þar sem reisa á snjóflóðavarnarmannvirki.

Minjarnar sem hafa fundist síðustu tvö sumur hafa verið bæði eldri og meiri en reiknað var með. Í fyrra komu í ljós byggingar frá því fyrir 1100, þar með talinn skáli, en skálar voru á þeim tíma híbýli og helstu vistarverur fólks.

Miklar mannvistarleifar undir skriðunni


Á svæðinu voru ummerki um aurskriðu frá því um 1100 sem talin var hafa lagst upp að bæjarhúsunum. Nýlega var skurðgrafa fengin á svæðið til að grafa í gegnum skriðuna. „Hún er um 80 sm. þar sem hún er þykkust og stórgrýtt yfir norðurenda skálans,“ segir Ragnheiður Traustadóttir fornleifafræðingur sem stýrir uppgreftrinum.

„Við erum núna byrjuð að grafa niður í skálann og sjáum hvernig skriðan hefur sprengt hann upp. Það gefur okkur betri skilning á þeim aðstæðum sem íbúar Fjarðar hafa staðið frammi fyrir. Skriðan hefur tekið góðan bita af norðurhlutanum og farið með út í sjó. Síðan sjáum við að í framhaldinu hefur nýjum veggjum verið tjaslað upp. Á einum stað hefur efni úr skriðunni verið notað til að byggja upp nýjan norðurvegg,“ segir Ragnheiður.

„Eftir að við flettum skriðunni ofan af höfum við fundið miklar mannvistarleifar á svæði þar sem við héldum áður að væri bara skriða. Við erum strax farin að finna þar töflur (taflmenn) úr hnefatafli, perlur, hnífa, brýni og deiglubrot. Við ætluðum að ljúka uppgreftrinum 1. september en þessi nýju mannvistarlög þýða að það dregst fram eftir þeim mánuði.“

Rannsaka útihúsin


Þessar upplýsingar setja einnig tilvist öskuhaugs við húsin í nýtt samhengi. „Hluti öskuhaugsins sem við grófum upp í fyrra er frá 1100-1150. En í honum eru líka eldri mannvistaleifar sem mokað hefur verið út úr húsunum eftir skriðurnar. Þessar minjar eru frá því áður en skriðan féll þannig að með þessum útmokstri nær aldur mannvistarleifa í öskuhaugnum lengra aftur en 1100. Hann veitir okkur því innsýn í töluvert meira en 50 ára tímabil mannvistarleifa.“

Þess utan hefur verið haldið áfram að grafa víðar á svæðinu almennt og nýir gripir bæst við, svo sem snældusnúðar og fleiri perlur, þar af ein mósaíkperla. Grafið hefur verið í útihúsum í kringum skálann og eru mörg byggingaskeið, eitt af úthúsunum sem hefur fundist er byggt ofan á skriðuna frá 1100 en farið úr notkun fyrir 1158, því gjóskulagið frá Heklu lá óhreyft ofan á því.

„Þessi skriða hefur mótað landslagið vestan við bæinn verulega. Fast við hana eru útihús frá 10. fram á 20. öld. Í júní byrjuðum við að grafa útihús sem byggt er eftir 1875 en það virðist skera í sundur eldra hús frá 1100-1150. Við sjáum líka að skriðan hefur gert fólki erfitt að búa til ný hús. Við sjáum að á einum stað hefur verið grafið niður í skriðuna til að skapa pláss.“