Skattspor íslensks sjávarútvegs 85 milljarðar króna
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 10. nóv 2023 09:05 • Uppfært 10. nóv 2023 09:08
Íslenskur sjávarútvegur greiddi 85 milljarða króna í opinber og launatengd gjöld á síðasta ári. Áætlað er að hann standi beint og óbeint undir alls 15-20% af landsframleiðslu.
Þetta er meðal þeirra talna sem kynntar voru á fundi sem Samtök félaga í sjávarútvegi (SFS) stóðu fyrir á Egilsstöðum á mánudag. Fundurinn var hluti af hringferð samtakanna undir yfirskriftinni „Hvað hefur sjávarútvegur gert fyrir mig?“
Skattsporið skiptist þannig að 31,5 milljarður er staðgreiðsla skatta, mótframlag í sjóði nemur 10,9 milljörðum, veiðigjald 7,9 milljörðum, tryggingagjald 7,4 milljörðum, lífeyrissjóðsgreiðslur 6,3 milljörðum, aflagjald 3,5 milljörðum, kolefnisgjald 2,2 milljörðum, stéttarfélagsgjöld 1,6 milljarði og fasteignaskattar 1 milljarði.
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, sagði að aðeins á Íslandi skilaði sjávarútvegur meira til þjóðarbúsins en hann tæki til sín innan ríkja OECD. 85 milljarðar eru sama upphæð og ríkið ver árlega til heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa eða til samanlagt til framhaldsskóla og háskóla. Þó er ekki svo að skattsporið fari allt til ríkisins, heldur til þess, sveitarfélaga og réttindasjóði launþega.
Austurland leggur mest til veiðigjaldsins
Veiðigjaldið er hluti af hagnaði sjávarútvegsfyrirtækja. Gróflega reiknað er það þriðjungur af hagnaði fyrirtækjanna. Heiðrún Lind sagði veiðigjaldið hafa endað í 7,9 milljörðum síðustu tvö ár en eftir fyrstu níu mánuði ársins hefur það þegar ná þeirri tölu. Það endi því væntanlega í 10-11 milljörðum og hafi aðeins einu sinni verið hærra.
Samkvæmt gögnum frá Fiskistofu er Austurland það landssvæði sem lagt hefur mest til veiðigjalda á árinu 2023 eða rúm 24%. Þar á eftir koma Suðurland og höfuðborgarsvæðið með um 18%.
Þá kynnti Heiðrún Lind útreikninga sem sýndu að rekstrargjald sjávarútvegsfyrirtækja væri um 80% af aflaverðmæti. Hún sagði skynsamlegra að ræða upphæð veiðigjalda og framlag sjávarútvegs til þjóðarbúsins út frá slíku samhengi, frekar en veiðigjaldinu einu. Heiðrún Lind bætti við að eftir því sem skattgreiðslur væru meiri því minna yrði eftir til fjárfestinga, sem til þessa hefðu verið forsenda tækniþróunar og þar með verðmætasköpunar í íslenskum sjávarútvegi.
Mikil áform um landeldi geta aukið útflutningstekjur Íslands
Konráð S. Guðjónsson, aðalfræðingur Arion banka, sagði á fundinum að framlag sjávarútvegs til landsframleiðslu væri trúlega 15-20%. Það skiptist í þrennt. Í fyrsta lagi beinar tekjur af sjávarútvegi sem eru 7% af landsframleiðslu. Næst er óbeint framlag, sem felst í viðskiptum sjávarútvegs í flutningum, iðnaði og slíku sem talin eru 8%. Þriðja stoðin eru fyrirtæki sem ekki byggja beint á sjávarútvegi en eru sprottin úr honum, svo sem Marel og Kerecis.
Á fundinum var mikil áhersla lögð á þýðingu íslensks sjávarútvegs fyrir útflutningstekjur þjóðarbúsins og þar með lífskjör í landinu. Bæði Konráð og Heiðrún Lind sögðu mikilvægt að fleiri stoðir bættust við útflutninginn.
Hann benti sérstaklega á vöxt með fiskeldi með stórauknu landeldi. „Áformin sem uppi eru í landeldinu eru eins og við séum að rækta fiskinn í baðkari í dag,“ sagði hann.“ Hann sagði áætlaða fjárfestingu þar jafn mikla og í öllum byggingum, nýbyggingum jafnt sem viðhaldi, á næstu árum.
Ekki öll útgerðarfélög sem græða mikið
Í umræðum á fundinum var meðal annars spurt hvort mikil auðsöfnun á fáar hendur í sjávarútvegi, sem síðar birtist í miklu eignarhaldi í öðrum atvinnugreinum, væri það sem skapaði tortryggni í garð greinarinnar. Heiðrún Lind svaraði því að eðlilegt væri að fólk ræddi afkomuna úr sjávarútvegi. Hún sagði hins vegar að það væri ekki alls staðar þannig í sjávarútvegnum að smjör drypi af hverju strái. Ef hún sæi að veiðigjaldið væri of lágt miðað við arðgreiðslur greinarinnar þá gerði hún athugasemdir við það. Um það sæi hún ekki merki.
Hún sagði einnig að sjávarútvegurinn gæti ekki kveinkað sér undan umræðu, nýting náttúruauðlinda væri hápólitískt mál um allan heim, sérstaklega þar sem aðgengi að auðlind er takmarkað. Hún kallaði þó eftir þroskaðri umræðu þótt fólk eða stjórnmálaflokkar hefðu ólíkar skoðanir á leiðunum að markmiðunum.
Skráning á markað eykur gagnsæi
Einnig var spurt hvort jákvætt væri að fleiri sjávarútvegsfyrirtæki yrðu skráð á almennan hlutabréfamarkað. Þar eru fyrir Síldarvinnslan og Brim en Ísfélag Vestmannaeyja er væntanlegt. Konráð svaraði að svo væri í augum þeirra sem starfi á fjármálamarkaði. Það væri heilbrigt fyrir lýðræðisþjóðfélag að vera með sín stærstu fyrirtæki á markaði. Slíkt yki gagnsæi og aðhald.
Heiðrún Lind ræddi samþjöppun í sjávarútvegi, sem hún sagði ekki mikla miðað við aðrar atvinnugreinar hérlendis, einkum ekki þar sem sjávarútvegurinn væri í alþjóðlegri samkeppni. Hún varaði hins vegar við að of mörg félög á hlutabréfamarkaði væri ekki endilega af hinu góða ef það þýddi að aflaheimildir söfnuðust á alltof fáar hendur. Í dag má hver útgerð að hámarki eiga 12% heildarkvótans. Því var velt upp hvort rétt væri að hækka það í 14% fyrir skráð almenningsfélög eða hvort betra væri að miða hámarkið við ákveðnar fisktegundir frekar en heildarkvótann. „Við megum ekki missa fókusinn á að allir eigi að vera skráðir og stórir. Við viljum fjölbreytni,“ sagði Heiðrún Lind.
Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar sem skráð var í Kauphöllina sumarið 2021, sagði að sinna yrði félögum á markaði frekar en sífellt skrá fleiri. Í kringum aldamótin hafi ríflega 20 útgerðarfélög verið á markaði en fjárfesting í þeim verið takmörkuð sem hafi endað með því að eigendur þeirra hafi kosið að afskrá þau og auka verðmæti þeirra eftir öðrum leiðum. Í dag sé takmörkuð viðskipti með þau félög sem séu á markaði.