Skemmtiferðaskip í kröppum dansi eftir brottför frá Seyðisfirði
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 16. sep 2025 11:14 • Uppfært 16. sep 2025 11:16
Skemmdir urðu á þýska skemmtiferðaskipinu AIDA sol í óveðri á siglingu þess milli Íslands og Skotlands í síðustu viku. Seyðisfjörður var síðasta viðkomuhöfn þess hérlendis.
Skipið, sem tekur rúmlega 2.000 farþega, var á Seyðisfirði mánudaginn í síðustu viku, 8. september, en sigldi eftir það til Invergordon, nærri Inverness í Skotlandi.
Þýskir fjölmiðlar greina frá því að á leiðinni hafi skipið lent í miklu óveðri þar sem vindhraðinn hafi farið í um 100 km/klst eða um 28 m/s sem eru 10 vindstig, svokallað rok, á þeim kvarða. Öldurnar náðu átta metra hæð og bárust upp á áttunda þilfar.
Farþegar um borð sváfu skiljanlega lítið um nóttina en sluppu ómeiddir, líkt og áhöfnin. Þeim var þó aldrei teljandi hætta búin. Þótt skemmtiferðaskipin þoli vel slíkt veður er þeim yfirleitt siglt framhjá til að forðast óþægindi fyrir farþega.
Skemmdir voru sjáanlegar á fimmta þilfari. Sjá má brak í myndböndum sem farþegar settu á samfélagsmiðla. Áhöfnin gerði við verstu skemmdirnar til bráðabirgða en skipið lauk 12 daga ferð sinni eins og ætlað var í Hamborg á föstudag.