Skerpa sérstaklega á gæðastarfi grunnskóla Fjarðabyggðar næstu árin
Næstu þrjú árin verður sérstök áhersla lögð á uppbyggingu lærdómssamfélagsins í Fjarðabyggð varðandi innra mat og gæðastarf gagnvart nemendum og starfsfólki en undirbúningur þessa verkefnis hófst fljótlega eftir síðustu áramót.
Stjórnendur grunnskóla Fjarðabyggðar hittust á sérstökum vinnfundi til að taka stöðuna í vikunni. Meginhugmyndin með þessu er að auka gæði skólastarfsins og þróa það markvisst til betri vegar en það er fyrirtækið Ásgarður skólaráðgjöf sem er ráðgefandi aðili í verkefninu.
Fyrir utan reglulega fundi með sérstökum gæðaráðum sem komið verður á fót í hverjum grunnskóla fyrir sig skal funda sameiginlega með öllum skólum sveitarfélagsins einu sinni í hverjum mánuði skólaársins. Þá skal og halda sérstakt skólaþing þann 22. október þar sem starfsfólk skólanna ræðir skólastarfið við bæði nemendurna, foreldra og forráðmenn.
Skerpa fókusinn
Líneik Anna Sævarsdóttir, stjórnandi fræðslumála og skólaþjónustu hjá Fjarðabyggð, bendir á að þegar sinni allir grunnskólar innra gæðamati í samræmi við lög og reglur og menntastefnu ríkisins og hvers sveitarfélags fyrir sig en með verkefninu skal brýna á öllum hlutum reglulega. Þegar liggja fyrir ákveðin markmið í skólastarfinu í Fjarðabyggð og vinnan snýst um að sjá hvort það tekst að ná þeim markmiðum sem sett hafa verið.
„Þetta eru hlutir sem skólarnir eru að vinna með og hafa verið að vinna með en með þessu gerum við þetta að sérstöku áhersluverkefni næstu þrjú árin og það þannig að skólarnir vinna nú allir saman. Í öllum skólunum hafa unnið starfshópar undanfarin ár en með mismunandi áherslur í starfinu. Gæðaráðin verða þannig einn af þessum starfshópum og þó viðfangsefnið sé innra matið á skólastarfinu þá kemur vinnan í hópnum inn á allt mögulegt annað sem fram fer innan veggja skólanna. Við getum sagt að með þessu sé verið að taka þessi mál fastari tökum en verið hefur. Ekki svo að skilja að þessi mál hafi ekki verið í forgrunni áður en með samvinnu allra skólanna eru þeir allir samstíga í skrefunum og þannig eykst áherslan fyrir vikið.“
Alls eru fimm grunnskólar í Fjarðabyggð og Grunnskóli Fáskrúðsfjarðar einn þeirra. Aukin samvinna og samstarf er talið vel fallið til að bæta gæði skólastarfsins í skólunum öllum. Mynd Grunnskóli Fáskrúðsfjarðar