Skipin koma inn eitt af öðru með síld
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 06. sep 2023 14:05 • Uppfært 06. sep 2023 14:06
Síldveiðar ganga vel úti fyrir Austfjörðum þessa dagana. Stutt er að fara á miðin og fljótlegt að fylla þannig að túrarnir taka ekki langan tíma.
Þannig var Hoffell, skip Loðnuvinnslunnar, innan við sólarhring í sínum fyrsta síldartúr á þessari vertíð. Skipið fór frá Fáskrúðsfirði seinni part mánudags og var komið aftur í hádeginu í gær með um 500 tonn sem það náði í tveimur hölum.
Hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað skiptast skipin á að landa og veiða. Í gærkvöldi var lokið við að landa um 1200 tonnum úr Barða og þá var Börkur tilbúinn að leggjast að bryggju með 1.470 tonn. Sá afli fékkst utarlega á Héraðsflóa.
Beitir hélt út upp úr kvöldmat í gær og er að veiðum um 40 sjómílur út af Norðfirði. „Þetta gengur fínt. Það er stutt að ná í fiskinn og ágætis veiði. Síldin er greinilega á smá svæði því einhverjir hafa verið að veiða norðar.
Þetta hefur verið svona síðustu ár. Norsk-íslenska síldin hefur verið skammt undan Austfjörðum,“ segir Grétar Örn Sigfinnsson, rekstrarstjóri útgerðar hjá Síldarvinnslunni.
Hann segir að skipin muni skiptast á að halda til veiða þannig þau sjái vinnslunni í landi fyrir nægu hráefni þannig hún haldist gangandi.