Skiptir mestu að forsetinn geti sýnt forustu á erfiðum tímum
Að geta sýnt forystu á erfiðum tímum er sá eiginleiki sem lesendur Austurgluggans/Austurfréttar telja skipta mestu máli fyrir forseta Íslands. Sérfræðingur í forystufræðum segir stemninguna í þjóðfélagi og atburði síðustu misseri hafa mikil áhrif á hvers konar eiginleikum þjóðin sækist eftir í forseta sínum.Í nýafstaðinni kosningakönnun Austurgluggans/Austurfréttar var meðal annars spurt út í mikilvægi forsetaembættisins, hvaða eiginleikum fólk telji forsetann helst þurfa að búa yfir og hvað væri mikilvægast í starfi forsetans.
Í stuttu máli þá töldu svarendur mikilvægast að forsetinn geti staðið með þjóðinni á erfiðum tímum, svo sem við náttúruhamfarir. Þá sögðu 72,5% að embættið skipti miklu máli.
„Það er klárt að fólk horfir til þess að forsetinn er forystumanneskja. Tæplega 75% þeirra sem svöruðu sögðu að embættið skipti miklu máli. Það er í andstöðu við orðræðu þar sem oft virðist vera gert lítið úr embættinu og það sagt áhrifalaust,“ segir Sigurður Ragnarsson, lektor við viðskiptadeild Háskólans á Akureyri, sem sérhæfir sig í forystu og samskiptum en hann hefur skoðað forsetaembættið út frá kenningum um forystu.
Aðstæður þurfa að vera frambjóðendum hagstæðar
Á eftir því að geta sýnt forystu á erfiðum tímum koma atriði eins og að standa vörð um íslenska menningu og tungu, geta komið vel fyrir, hafa þekkingu á stjórnskipan landsins og embættinu, skilning á lífi fólks á landsbyggðinni og geta staðið með lítilmagnanum.
„Ef við horfum á þetta út frá forystufræðunum þá þarf frambjóðandinn að vera sterkur í mannlegum samskiptum, geta komið fyrir sig máli og tjáð sig, þekkja embættið og geta skilið þjóðina og þjóðarsálina,“ útskýrir Sigurður.
Forysta á erfiðum tímum hefur á sér ýmsar birtingarmyndir því erfiðu tímarnir geta verið af margvíslegum toga. „Forsetinn þarf að vera tilbúinn að mæta á staðinn og sýna hluttekningu og samúð. Hann þarf líka að sýna hugrekki í erfiðum málum og vera tilbúinn að skjóta þeim til þjóðarinnar. Erfiðir tímar eru ekki bundnir við náttúruhamfarir heldur líka umdeild deilumál. Við sáum það í Icesave-málinu þegar miklar efasemdir voru uppi um að samþykkja ætti þá samninga.
Á sama tíma og forsetinn þarf að þora að taka af skarið og vera á móti, þá virðist líka skipta máli að hann sé jákvæður og geti sætt ólík sjónarmið. Þetta eru þættir sem má tengja við sanna- og þjónandi forystu, sem í örstuttu máli snýst um að blanda saman að þjóna og að leiða .“
Sigurður bendir á að andrúmsloftið ráði miklu um eftir hvers konar forseta sé leitast. „Það er lykilatriði fyrir forsetaframbjóðendur að aðstæður séu þeim hagstæðar. Við höfum gengið í gegnum erfiða tíma með Covid-faraldri og náttúruhamförum víða um land þannig það kemur ekki á óvart að fólk leiti eftir frambjóðanda sem geti leitt á erfiðum tímum. Þetta atriði gæti skipt minna máli hefðum við siglt lygnan sjó síðustu misseri.“
Kjósendur krefjast ákveðinna eiginleika
Styrkleikar frambjóðendanna eru misjafnir og það þarf því kannski ekki að koma á óvart þótt að við nánari greiningu á könnuninni komi í ljós að svarendur hafi ólík áhersluatriði á forsetaembættið eftir því hvaða frambjóðanda þeir vilja. Þannig skora atriði eins og þekking á stjórnskipaninni og að geta staðið með þjóðinni, vel hjá Baldri Þórhallssyni og Katrínu Jakobsdóttur, á meðan eins og tenging við frambjóðandann skiptir þá sem kjósa Jón Gnarr miklu máli.
„Forystufræðin snúast ekki bara um leiðtogann sjálfan heldur þá sem kjósa eða fylgja. Þau segja okkur líka að ef frambjóðandinn býr ekki yfir einhverjum af þeim 3-5 eiginleikum af því sem taldir eru mikilvægastir þá getur það komið niður á fylginu.“
Forsetarnir hafa sannað hæfni sína
Hvernig sem fer á laugardag þá hefur Sigurður trú á að nýjum forseta takist fljótt og vel að ná vinsældum á meðal íslensku þjóðarinnar. „Fólk kann að meta það ef forsetinn stendur sig vel. Við höfum séð forseta verða mjög vinsæla, þótt þeir hafi ekki náð 50% atkvæða. Vigdís Finnbogadóttir var t.d. kjörin með 33,7% atkvæða en hún er einn vinsælasti forseti sem við höfum átt. Forsetar Íslands hafa sannað sig með aðgerðum sínum og forystuhæfileikum.“
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum í síðustu viku. Hægt er að panta áskrift hér.