Skip to main content

Skoða að halda málþing um mikilvægi Fjarðarheiðarganga fyrir heimamenn á Seyðisfirði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 05. ágú 2025 14:43Uppfært 11. ágú 2025 10:58

Mikilvægi Fjarðarheiðarganga fyrir íbúa Seyðisfjarðar og Austurlands alls verður seint ofmetið. Slíkt mun það stórbæta aðgengi til og frá bænum að vetrarlagi og tryggja að heimafólk geti nýtt sér bráðnauðsynlega og sjálfsagða þjónustu eins og heilsugæslu og læknisaðstoð allan ársins hring svo aðeins eitt sé nefnt. Göngum fylgja þó mörg önnur tækifæri sem verður þema málþings sem Múlaþing skoðar nú að halda með haustinu.

Þó enn liggi ný og endurskoðuð samgönguáætlun nýrrar ríkisstjórnar ekki fyrir og verður ekki fyrr en með haustinu er brýnt að halda málinu á lofti enda þegar orðnar miklar tafir á að verkið hefjist sem átti að vera á yfirstandandi ári samkvæmt áætlun fyrri ríkisstjórnar. Göngin atarna verið klár til útboðs um nokkurt skeið af hálfu Vegagerðarinnar.

Stórbætt aðgengi íbúa að allri þjónustu allan ársins hring er þó aðeins einn angi af þeim breytingum sem kunna að verða á Seyðisfirði þegar göngin verða tekin í gagnið og eftir ósk um málþing þar að lútandi er nú til skoðunar hjá Múlaþingi að halda slíkt þing með haustinu. Það yrði sérstaklega miðað að heimafólki á Seyðisfirði og þau tækifæri sem skapast gætu í bænum þegar gangnagerðinni lýkur að sögn sveitarstjóra Múlaþings.

„Við erum að skoða það að halda málþing, fyrst og fremst fyrir íbúa á Seyðisfirði um það hvaða áhrif það kemur til með að hafa á samfélagið að fá Fjarðarheiðagöng og tækifærin sem það mun skapa fyrir samfélagið,“ segir Dagmar Ýr Stefánsdóttir, sveitarstjóri.  „Ekkert er fastsett enn sem komið er en við erum að horfa á þetta málþing með haustinu.“

Tölvuteikning Vegagerðarinnar af gangnamunna Fjarðarheiðarganga Seyðisfjarðarmegin. Þau munu þau skapa ýmis ný tækifæri fyrir heimafólkið þegar þar að kemur.