Skip to main content

Skoða aðstöðu á Eiðum undir flóttafólk frá Úkraínu

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 25. apr 2022 13:51Uppfært 25. apr 2022 13:54

Til athugunar er að hýsa flóttafólk frá Úkraínu í húsnæði sem áður tilheyrði Alþýðuskólanum á Eiðum. Bæjarstjóri Múlaþing segir alla sem að málinu koma jákvæða fyrir lausninni. Eigandi Eiða segir gleðilegt ef hægt er að hjálpa.


„Eigendur Eiða höfðu samband við okkur með hugmyndir sínar og höfðu þá verið í sambandi við félagsmálaráðuneytið.

Við funduðum með þeim ásamt fulltrúa frá fjölskyldusviði okkar og höfum síðan rætt óformlega við fulltrúa ráðuneytisins. Við bíðum eftir punktum þaðan.

Heilt yfir finnst okkur þessar hugmyndir áhugaverðar. Það er jákvæðni fyrir og þær ættu að vera framkvæmanlegar en það á eftir að útfæra þær nánar,“ segir Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Múlaþings.

Málið var tekið fyrir á fundi byggðaráðs sem lýsti stuðningi við vinnuna og fól Birni að vinna málið áfram. Hann vildi á þessu stigi lítið segja um hvernig tillögurnar sem unnið væri eftir litu út en staðfesti að horft væri til þess að tvinna saman húsnæði og þjónustu á staðnum til lengri tíma.

„Við höfum óskað frekari upplýsinga frá bæði eigendum Eiða og ráðuneytinu og ætlum okkur síðan að setjast niður með þeim til að ná frekar utan um þetta. Við teljum hugmyndirnar skynsamlega uppsettar og lausnamiðaðar þannig þær ættu að geta skilað árangri.“

Íslenska ríkið hefur að undanförnu leitað að sveitarfélögum sem tekið geta við fólki sem lagt hefur á flótta eftir innrás Rússa inn í Úkraínu í lok febrúar. Múlaþing er meðal þeirra sveitarfélaga sem tekið hafa jákvætt í erindið.

„Við höfum brugðist jákvætt við en ekki endilega haft lausnir, til dæmis varðandi húsnæði. Við viljum ekki lofa einhverju sem ekki er hægt að standa við og þegar húsnæði vantar á svæðinu er erfitt að hýsa fjölda manns. Þess vegna spilar þessi hugmynd eigenda Eiða vel saman við áherslur sveitarfélagsins.“

Einar Þorsteinsson, einn eigenda Eiða, segir verið að skoða mismunandi útfærslur á móttöku flóttafólks á Eiðum. Líklegast myndi það gerast í skrefum því ekki yrði hægt að hafa allt húsnæðið tilbúið á sama tíma. Hann segir hugsjón eigendanna að hjálpa fólki í neyð. Um leið myndi það kveikja líf í samfélaginu á Eiðum að fá þangað nýtt fólk.

„Það er velkomið af okkar hálfu ef þetta gerist. Það hefur verið átakanlegt fyrir okkur sem aðra að sjá fréttirnar í sjónvarpinu um það er að gerast. Þess vegna viljum við hjálpa ef einhverjir vilja koma til okkar og yrðum mjög ánægðir ef við gætum orðið evrópsku samfélagi til góðs.“