Skip to main content

Viðræður um bráðabirgðalausn á tjaldsvæði í Neskaupstað

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 11. jún 2025 13:52Uppfært 11. jún 2025 16:08

Viðræður eru í gangi um stað fyrir ferðavagna í Neskaupstað í sumar og verið er að ganga frá samningum við rekstraraðila á tjaldsvæðinu á Eskifirði í sumar.


Eins og Austurfrétt greindi frá nýverið hefur góður gangur í framkvæmdum við snjóflóðavarnir í Neskaupstað valdið því að tjaldsvæðið þar er orðið að framkvæmdasvæði. Alltaf var vitað að það yrði að víkja en reiknað var með að það yrði ekki fyrr en eftir sumarið.

Að sama skapi er nýtt tjaldsvæði sem á að koma við snjóflóðavarnirnar innan við bæinn ekki tilbúið. Stefnt er á að það verði tilbúið fyrir næsta sumar.

Aðstaða fyrir ferðavagna en ekki tjöld í sumar


Stjórnendur Fjarðabyggðar hafa því verið að skoða aðra möguleika í stöðunni. Gunnar Jónsson, bæjarritari, segir að viðræður séu í gangi um ákveðna staðsetningu þar sem hægt verði að taka á móti húsbílum, tjaldvögnum og hjólhýsum.

Samningar eru ekki frágengnir en svæðið var kannað betur í síðustu viku. „Við erum að skoða bráðabirgðalausnir með takmarkaðri þjónustu þannig hægt verði að bjóða einhverjar lausnir. Við viljum geta vísað á salerni, vatn og hægt sé að tengjast rafmagni.

Ef þessi staðsetning gengur upp þá verður hún fín fyrir ferðavagna. Við munum eiga erfiðra með að ráða við svæði fyrir tjöld í sumar. Þetta skýrist von bráðar,“ segir Gunnar.

Samið um rekstur á Eskifirði


Bæjarstjórn Fjarðabyggðar samþykkti árið 2023 að selja reksturinn á tjaldsvæðum sveitarfélagsins. Camp East keypti tjaldsvæðin frá Reyðarfirði og suður úr í fyrra en samningur var gerður um að fyrirtækið ræki líka tjaldsvæðin í Neskaupstað og á Eskifirði. Samningurinn var aðeins til eins árs.

Til stóð að tjaldsvæðin á stöðunum tveimur fylgdust að en breytingarnar í Neskaupstað breyttu forsendunum. Gunnar segir að samningar um að Camp East þjónusti tjaldsvæðið á Eskifirði í sumar séu á lokametrunum og það geti opnað í kjölfarið.

Norðfirðingar þrýsta á um lausn


Kurr hefur verið meðal Norðfirðinga á að hafa ekkert tjaldsvæði klárt fyrir sumarið. „Við höfum lítið fengið af formlegum athugasemdum en íbúar hafa ýtt á málið og spurt út í stöðuna þegar þeir hitta á fulltrúa Fjarðabyggðar, eins og gerist.“

Gunnar telur að ákvörðunin frá 2023 hafi almennt gengið vel. „Það var ákveðið að sveitarfélagið drægi sig út úr að reka tjaldsvæði heldur myndi ferðaþjónustan sinna því og Fjarðabyggð útvegaði aðstöðuna. Það gekk vel í fyrra.“